Fréttir

Og enn er karlalið Skells ósigrað

Blak | 16.02.2013

Helgina 9.-10. febrúar héldu meistaraflokkar karla og kvenna hjá Blakfélaginu Skelli á annað mótið af þremur í þriðju deild Íslandsmótsins í blaki. Mótið var haldið á Akranesi, í umsjón Blakfélagsins Bresa. Er skemmst frá því að segja að ferðin gekk vel og árangur liðanna betri en margir þorðu að vona. Að mati þjálfara félagsins hefur orðið framför hjá báðum liðum frá því á mótinu í haust og stóðu allir leikmenn sig vel.

Karlalið Skells gerði sér lítið fyrir og vann alla fjóra leikina sína á mótinu og hélt þar með áfram sigurgöngu sinni frá því á mótinu í haust. Liðið er þegar búið að tryggja sér rétt í úrslitum 3. deildar, um sigur í deildinni sem gefur sæti í 2. deild á næsta tímabili. Þetta er glæsilegur árangur, en þetta er í fyrsta sinn sem karlalið frá Skelli tekur þátt í Íslandsmótinu í blaki.

Kvennalið Skells stóð sig líka vel um helgina og vann fjóra leiki en tapaði tveimur. Með því færðust þær úr 4. sæti riðilsins upp í hið þriðja. Deildin er mjög jöfn og leikirnir eru slík barátta að leikmenn þurfa að nota alla sína orku, bæði andlega og líkamlega. Oftar en ekki enda hrinurnar með minnsta mögulega mun. Þess ber að geta að deildirnar á Íslandsmóti kvenna í blaki eru samtals sex.

Þriðju deildir karla og kvenna eru spilaðar í tveimur riðlum, suðurriðli og austurriðli. Austurriðill er aðallega skipaður liðum af Austurlandi og suðurriðill er með liðum frá Suðvestur- og Vesturlandi og Vestfjörðum. Allir leikir deildanna eru spilaðir á þremur mótum en fjöldi leikja fer eftir liðafjölda í hverjum riðli. 3. deild kvenna suður er skipuð 7 liðum og spiluð er þreföld umferð í riðlinum, samtals átján leikir á lið. Í þriðju deild karla suður eru 4 lið og spila þau fjórfalda umferð, samtals tólf leiki á lið. Tvö efstu liðin í hvorum riðli í hvorri deild, spila svo til úrslita um fyrsta til fjórða sætið í 3. deildum karla og kvenna í sérstakri úrslitakeppni þar sem tvö efstu liðin úr Austurriðlinum taka einnig þátt.

Síðasti hluti riðlakeppninar fer fram dagana 15 og 16 mars í Ásgarði í Garðabæ og úrslitakeppnin í 3. deild karla og kvenna fer svo fram helgina þar á eftir.

Deila