Fréttir

Skemmtileg jólamót hjá börnum og fullorðnum

Blak | 21.12.2011 Yngri flokkar
Jólamót Skells fyrir yngri flokka var haldið sunnudaginn 18. desember. Það tókst í alla staði mjög vel og vonandi hafa allir farið ánægðir heim. Rúmlega 60 þátttakendur voru á mótinu frá Þingeyri, Suðureyri og Ísafirði. Börnin í boltaskóla HSV hafa verið í blaki síðustu vikur og mættu þau einnig á mótið.

Elstu krakkarnir (3. og 4. flokkur) byrjuðu og kepptu þar tvö lið frá Höfrungi og tvö frá Skelli. Þingeyrarliðin kepptu við Skellsliðin og vann Stekkjastaur, A-lið Höfrungs, allar sínar hrinur - enda öflugir krakkar og miklir íþróttamenn. Í stað þess að láta Höfrung keppa innbyrðis og Skell innbyrðis var ákveðið að draga í blönduð lið fyrir síðasta leikinn.

Í 5. flokki kepptu þrjú lið frá Skelli, eitt frá Suðureyri og tvö frá Ísafirði.  Þau kepptu undir nöfnum Pottaskefils, Skyrgáms og Hurðaskellis. Allir leikirnir voru jafnir og spennandi en Hurðaskellir hlaut flest stig.

Einn leikur var spilaður í 3. stigi á milli Höfrungs og Skells.

Krakkarnir í 1.- 4. bekk hjá íþróttaskóla HSV spiluðu krakkablak á 1. og 2. stigi við yngri krakkana frá Þingeyri og líka innbyrðis. Það var frábært að sjá hvað krakkarnir í íþróttaskólanum eru búnir að ná góðum tökum á krakkablaki á stuttum tíma. Og það er stórkostlegt blakstarf sem fer fram á Þingeyri undir stjórn Guðrúnar Snæbjargar.

Í lok mótsins fengu allir krakkarnir húfur merktar blakfélögunum.

Fullorðnir:
Jólamót fullorðinna var haldið fimmtudagskvöldið 15. desember og var keppt í 4-5 manna liðum. Liðin voru 5 talsins og var spilað á tíma í þetta sinn. Hver leikur var tvisvar sinnum 12 mínútur. Það lið sem skoraði flest stig í heildina sigraði. Mótið var sérlega jafnt og munaði bara örfáum stigum á liðunum. Baráttan var mikil og ekki alltaf að sjá á að um innanfélagsjólamót væri að ræða - enda á alltaf að taka á því þegar blak er spilað :-)  Liðið Gáttaþefur sigraði.
Deila