Fréttir

Skemmtilegt öldungamót í Eyjum

Blak | 11.05.2011 Blakfélagið Skellur átti tvö lið á öldungamótinu í Vestmannaeyjum sem fram fór um síðustu helgi, eitt karla- og eitt kvennalið. Á mótinu var keppt í fimm deildum öldunga karla, einni deild ljúflinga karla og 12 deildum öldunga kvenna, samtals voru þetta 125 lið.

Karlalið Skells er í 4. deild öldunga og er óhætt að segja að liðið hafi vaxið með hverjum leik á mótinu. Fyrstu fjórir leikirnir töpuðust, en margir þeirra stóðu þó tæpt. Síðasta daginn vann Skellur síðan báða sína leiki sannfærandi og forðaði sér þar með frá falli. Síðasti leikur Skells var eftirminnilegur. Þá spiluðu þeir við lið sem kallast „Massadjamm“ en það lið er þekkt fyrir óvæntar uppákomur og skemmtilegheit á öldungamótum. Fyrir þennan leik höfðu þeir pantað litla lúðrasveit úr Eyjum sem marseraði inn á völlinn í upphafi leiks og hélt uppi miklu stuði allan leikinn. Áhorfendur flykktust á leikinn og þótt flestir þeirra héldu með stuðboltunum í Massadjammi unnu karlarnir okkar sannfærandi sigur, dyggilega studdir af kvennaliði Skells.

Kvennalið Skells byrjaði mótið vel í 5. deild og vann þrjá fyrstu leikina sína. Síðan tapaði liðið fyrir feiknasterku liði HK United. Þá var ljóst að næsti leikur við Aftureldingu gæti orðið úrslitaleikur um 2. sætið í deildinni og jafnframt um sæti í 4. deild að ári. Sá leikur tapaðist naumlega í oddahrinu. Síðasti leikurinn varð þá úrslitaleikur við Bresa um 3. sætið og í honum sýndu Skells-konur allar sínar bestu hliðar, unnu leikinn örugglega og tryggðu sér bronsið.

Vestmannaeyjar skörtuðu sínu fegursta allan tímann og stemmningin á mótinu hreint frábær. Reyndar þurfti að flýta ferð Herjólfs heim á sunnudegi vegna þess að aðeins var hægt að sigla í Landeyjahöfn á flóði og því þurftu menn að rífa sig upp klukkan 6 á sunnudagsmorgni og þramma niður í bát - en veðrið var svo fallegt að það kom ekki að sök. Deila