Fréttir

Stefna Skells í málefnum yngri flokka

Blak | 14.02.2011  

Stefna Skells í málefnum yngri flokka

 

Þjálfarar

Þjálfarar skulu hafa fagþekkingu á sviði þjálfunar og mun félagið sjá til þess að hennar sé aflað með því að:

  • Senda þjálfara á námskeið hjá Blí þegar slík námskeið eru haldin
  • Reyndir þjálfarar fræða nýja þjálfara á sérstökum haustfundum
  • Stuðla að samskiptum yngri flokka þjálfara við þjálfara annarra félaga

Yngriflokkaráð skal fylgjast með starfi þjálfaranna og sjá til þess að það sé samræmt.

 

Foreldrar

Félagið skal sjá til þess að upplýsa foreldra um stefnu og markmið félagsins og stuðla að góðu sambandi þjálfara og foreldra. Upplýsingar um starfið skulu vera aðgengilegar á heimasíðu félagsins. Foreldrar skulu hvattir til að taka þátt í félagsstarfinu með börnum sínum og sjá þau spila blak á mótum og samæfingum.

 

Æfingar

Öll börn á sama aldri skulu hafa aðgang að æfingum félagsins, óháð kyni og líkamlegri og andlegri færni að eins miklu leyti og unnt er. Ef barn þarf á sérstakri meðhöndlun eða stuðningi að halda skal félagið ráðfæra sig við fagaðila og reyna að finna lausn til að hægt sé að hafa barnið á æfingum.

Æfingar eiga að vera fjölbreyttar og vel skipulagðar. Á æfingum eru börn þjálfuð í boltatækni, almennri hreyfifærni og líkamlegu þoli.

 Einnig er unnið með aga og félagsfærni barna. Ef barn truflar aðra ítrekað á æfingunni og hlýðir ekki þjálfara er það látið sitja hjá í ákveðinn tíma eða er vísað af æfingunni.

 

Skipun í lið - mót

Þau börn sem hafa æft blak í tiltekinn tíma, eru dugleg að mæta á æfingar og leggja sig fram á æfingum geta tekið þátt í mótum fyrir hönd Skells. Öll börn í sama aldursflokki hafa sama rétt á að taka þátt í mótum að því gefnu að þau hafi sýnt góða ástundun. Ef fleiri en eitt lið í viðkomandi flokki tekur þátt í móti fyrir hönd Skells, eru liðin alla jafna getuskipt. Það er gert til þess að allir fái að taka þátt í blaki við sitt hæfi. Krakkablaki er skipt í stig eftir getu leikmanna og er keppt í blaki á mismunandi stigum á flestum krakkablakmótum.

 

Fjáröflun

Ætlast er til þess að allir þeir sem æfa blak hjá Skelli taki þátt í fjáröflunum félagsins. Sumar fjáraflanir eru þess eðlis að menn þurfa að mæta á ákveðnum tíma og ekki er hægt að ætlast til þess að allir geti mætt í hvert sinn. Ef einhverjir komast ekki í eina fjáröflun, taka þeir þátt í þeirri næstu. Aðrar fjáraflanir eru þannig að ætlast er til þess að hvert barn skili einhverju inn, t.d. köku á kökubasar, eða selji ákveðið magn af einhverju. Fjáraflanir hjá yngri flokkum eru venjulega ekki einstaklings-fjáraflanir, heldur er safnað fyrir hópinn, ýmist flokkinn eða tiltekna ferð. Ef einhver iðkandi sinnir illa fjáröflunum skal rætt við foreldra hans eða forráðamenn og ef það skilar ekki árangri er hægt er að skerða niðurgreiðslu til ferða. Slíkt skal þó metið í hvert sinn með hliðsjón af aðstæðum barnsins.

Deila