Fréttir

Sviptingar í stjórn.

Blak | 19.04.2015

Þann 13 apríl 2015 hélt Blakfélagið Skellur aðalfund sinn.  Fundurinn var haldinn á veitingastaðnum Bræðraborg og var mæting með ágætum.  Líkt og á öðrum aðalfundum, fór formaður yfir starfsemi félagsins frá árinu áður og má þá skýrslu nú finna í heild sinni undir félagið og skýrslur.  Stærstu tíðindi ársins 2014 eru að sjálfsögðu þau að þá eignaðist félagið sinn fyrsta landsliðsmann.

Í skýrslu gjaldkera kom fram að fjárhagsleg staða félagsins er ásættanleg en rekstrarniðurstaða síðasta árs var neikvæð.  Félagið er engu að síður skuldlaust og býr enn að einhverjum sjóðum. Ljóst er að sívaxandi ferðakostnaður hefur veruleg áhrif á fjárhaginn, en vissulega er það nauðsynlegur hluti af þjálfun að komast á keppnir. Telja má fullvíst að verulega þurfi að efla tekjustofna félagsins á næstu árum og er mjög mikilvægt að ná styrktarsamningum við fyrirtæki til að auðvelda fjármögnun á keppnisferðum.

Í stjórnum félagsins urðu einhverjar mannabreitingar eins og oftast.  Samkvæmt lögum félagsins er árlega kosinn formaður, að auki tveir af fjórum meðstjórnendum og báðir varamenn stjórnar. Jón Kristinn Helgason færðist upp í stjórn í stað Arnars Guðmundssonar, en Nonni var áður varamaður í stjórn.  Í hans kemur Ragnheiður Fossdal inn í vara stjórn.  Sigurður Hreinsson var endurkjörinn formaður, Sólveig Pálsdóttir var endurkjörin í stjórn og Sigrún Sigvaldadóttir í varastjórn.  Í Barna og unglingaráði var Guðrún Karlsdóttir kjörinn ný inn og bætist við þann ágæta hóp sem hingað til hefur verið skipaður Hörpu Grímsdóttur, Kristni Mar Einarssyni, Önnu Kötu Bjarnadóttur og Bryndísi Birgisdóttur.

Undir liðnum önnur mál var helst rætt um fyrirhugaða aðstöðu fyrir strandblak í Skutulsfirði.  Gera félagsmenn sér vonir um að hugmyndin komist á framvæmdastig í sumar og að hægt verði að nýta þá aðstöðu áður en haustar.  Einnig báru sameiningarmál íþróttafélaga á góma.  Nokkuð ljóst er að sá tímarammi sem miðað var við kemur tæplega til með að standa, en vinna sameiningarnefndar miðar ágætlega og engann bilbug að finna á fundarmönnum að taka áfram þátt í þeirri vinnu.

Hér að lokum vill formaður þakka félagsmönnum fyrir gott ár 2014 og horfir bjartsýnn fram á nýjar áskoranir á þessu ári. Þá eru nýkjörnir stjórnarmenn boðnir velkomnir til starfa fyrir félagið og íþróttina sem og þakka hinum sem losnuðu undan skyldum, kærlega fyrir þeirra framlag á undanförnum árum.  Eigendum Bræðraborgar eru færðar bestu þakkir fyrir fundaraðstöðuna.

Deila