Fréttir

Þjálfari kvennalandsliðs Íslands í heimsókn

Blak | 18.05.2016
Daniele ræðir við leikmenn kvennalandsliðs Íslands á Ítalíu páskana 2015.
Daniele ræðir við leikmenn kvennalandsliðs Íslands á Ítalíu páskana 2015.
1 af 2

Daniele Mario Capriotti, þjálfari kvennalandsliðs Íslands kom til Ísafjarðar síðastliðna helgi ásamt Lorenzo Ciancio þjálfara unglingalandsliðs kvenna yngri en 16 ára. Þeir voru með tveggja daga æfingabúðir fyrir alla hópa blakfélagsins. Daniele þjálfar einnig hjá karlaliðinu Cuprum Lubin í pólsku úrvalsdeildinni (Plus Liga) sem er ein sú besta í heimi.

Daniele er mikill karakter og geislar af honum áhuginn og gleðin sem hann smitar yfir í leikmenn. Ég bað hann um að svara örfáum spurningum og mig langar til að deila svörunum hans hér. Ég geri heiðarlega tilraun til að þýða ensku hins ástríðufulla Ítala, sjálfsagt með mismunandi árangri, en ég held að innihaldið ætti að komast til skila

HVAÐAN ERTU?

Ég er frá Ítalíu, nánar tiltekið frá san Benedetto del Tronto sem er ferðamannabær við Adríahafs-ströndina.

HVAÐ HEFURÐU ÞJÁLFAÐ LENGI?

Ég byrjaði ferilinn sem þjálfari ungur, þegar ég var 18 ára, eða fyrir um 26 árum. Ég spilaði einnig blak þangað til ég var 25-26 ára.

AF HVERJU BLAK?

Vegna þess að ég elska liðsíþróttir og blak er sú hópíþrótt sem krefst mestrar samstöðu og samvinnu. Allir geta hjálpað og fengið hjálp. Ef leikmaður á slæma fyrstu snertingu getur næsti leikmaður dekkað fyrir hann og hjálpað til með að ná góðri annarri snertingu, og ef það mistekst getur þriðji leikmaðurinn hjálpað.

Þetta er blak og þetta er ástæðan fyrir því að ég elska íþróttina. Á ferli mínum hef ég þjálfað bæði karla- og kvennalið. Ég þjálfaði í um 10 ár í Ítölsku A-deild kvenna. Og ég hef tvisvar verið svo heppin að þjálfa í úrvalsdeild karla (Plus Liga) í Póllandi og þar hef ég haft heimsmeistara í mínum liðum. Ég hef líka fengið að þjálfa eitt af betri kvennaliðum Finnlands. Árið 2000 var ég aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Ítalíu í strandblaki og við náðum að komast á Ólympíuleikana í Sydney.

AF HVERJU ÍSLAND, OG HVERNIG FANNST ÞÉR AÐ KOMA TIL ÍSAFJARÐAR?

Vegna þess að það er land elds og vatns og græns friðar og bláa og hvíta litarins. Þetta er land fólks sem hefur stórkostlegan anda (eða sál), og alveg frá því ég kom hér fyrst hef ég verið snortinn af þessum anda.

Og við höfum markmið fyrir kvennalandsliðið. Við viljum komast upp í B-riðil meðal Evrópuþjóða. Og til þess að ná því þá verðum við að lyfta upp getustiginu hjá okkur öllum. Og hvað varðar blak þá er Ísafjörður einn af þeim áhugaverðu stöðum þar sem blak er spilað á Íslandi.

Og þegar ég kom til Ísafjarðar uppgötvaði ég einn fallegasta stað sem ég hef á ævi minni séð. Allt er svo ótrúlegt. Ég hef aldrei séð himininn svona nálægt hafinu, eða fjöllin svo nálægt hafinu. Og kyrrðin gefur tilfinningu um kraft og hamingju. Alveg sérstakt. Og ég held að þetta sé ástæðan fyrir því að íbúarnir eru svona frábærir og klárir og orkumiklir og gestrisnir. Ég varð ástfanginn af svæðinu og vonast til að geta komið aftur.

Ég er líka þakklátur blakfélaginu á Ísafirði fyrir að hafa gefið mér tækifæri til að koma og þjálfa alla þessa leikmenn. Stór gjöf handa mér á meðan ég er í tveggja mánaða lotu hér á landi með kvennalandsliðinu. Og að sjálfsögðu var ég mjög ánægður með að hafa fengið að vinna með hinum frábæra þjálfara ykkar honum Tiho.

Deila