Fréttir

Velheppnað jólamót

Blak | 08.12.2010 Jólamót Skells í blaki, Hurðarskellur, var haldið síðasta laugardag. Um morguninn spiluðu yngri flokkarnir og fullorðnir eftir hádegi, alls tóku um 80 blakarar þátt í mótinu.

Í yngri flokkum kepptu 14 lið sem fengu nöfn jólasveinanna og Grýlu. Liðin komu frá Þingeyri, Suðureyri og Ísafirði. Skemmst er frá því að segja að krakkarnir stóðu sig frábærlega. Á mótinu voru krakkar á aldrinum 6-16 ára að spila á mismunandi stigum. Nú hafa sumir krakkanna æft blak í rúmlega 3 ár hérna á svæðinu og það er gaman að sjá hvað þau eru orðin góð í blaki. Þarna voru líka ungir krakkar að stíga sín fyrstu blakskref og voru afskaplega dugleg. Í lok móts fengu allir bol.
Í fullorðinsflokki kepptu 5 lið, Jólaliðið, Jólastjörnur, Lúðarnir, Trölli og Rudolf. Skemmst er frá því að segja að keppnisskapið var allsráðandi innan vallar sem utan. Búningar og aðrir aukahlutir, með jólaandann í fyrirrúmi, settu sterkan svip á mótið. Leikirnir voru margir hverjir mjög jafnir og spennandi. Í ár var það liðið Rudolf sem sigraði eftir jafnan og spennandi úrslitaleik við Lúðana. Búningaverðlaun mótsins fékk síðan liðið Trölli.
Við þökkum fyrir skemmtilegan dag og sérstakar þakkir til allra þeirra sem lögðu hönd á plóginn og gerðu þetta mót mögulegt.
Myndir frá mótinu hafa verið settar inn á myndasíðuna.

Deila