Fréttir

Velheppnuð ferð á öldungamótið

Blak | 04.05.2009

Blakfélagið Skellur gerði ljómandi góða ferð á Íslandsmót öldunga í blaki sem haldið var á Seyðisfirði og Egilsstöðum um helgina. Mótið var hið fjölmennasta frá upphafi en 108 lið voru skráð til leiks. A lið kvenna spilaði gott blak svo að eftir var tekið og vann sigur í sinni deild. Þær munu því spila í 5. deild að ári. B liði kvenna gekk ekki eins vel og féllu þær niður í 8. deild, þrátt fyrir mjög góð tilþrif inn á milli.

 

Karlalið Skells náði glæsilegum árangri og lenti í 2. sæti í sinni deild og færist því upp í 4. deild. Lið Rassskells sem er sameinað lið Tálknfirðinga og Ísfirðinga stóð undir nafni og ýmist rassskellti önnur lið eða lét rassskella sig og endaði um miðja deildina.  Úrslitin í heild sinni má sjá hér: http://blak.is/default.asp?page=upplvefur/lokastada.asp  

 

Liðin fengu hús á Seyðisfirði og kvennaliðin gistu í einu húsi og karlaliðin í öðru skammt frá og var göngustígur á milli. Karlarnir voru svo sætir að bjóða konunum í ljúffengan mat á föstudagskvöldinu (alveg óvænt). Eftir það var haldið á Karaoke keppnina þar sem liðin okkar voru með tvö frábær atriði - annað diskó en hitt pönk. Konurnar buðu síðan körlunum í veislu fyrir lokahófið á laugardagskvöldinu og voru þá haldnar ræður, farið yfir atburði mótsins og ýmsar viðurkenningar veittar. Gífurleg stemmning var á lokahófinu eins og alltaf, enda vita allir blakarar að viðlíka stemmning fyrirfinnst hvergi annars staðar. 

 

Það voru þreyttir og sælir blakarar sem lentu á Ísafjarðarflugvelli á sunnudag. Sumir voru komnir heim en aðrir áttu eftir að keyra mislangt.  Næsta verkefni verður síðan landsmót UMFÍ sem haldið verður á Akureyri í júli, en stefnt er á að senda blaklið karla og kvenna frá HSV.

 

Deila