Fréttir

Vestri í undanúrslit Íslandsmótsins

Blak | 16.04.2023
Vestri ásamt heimaliðinu Þrótti Fjarðabyggð, í Laugardalshöllinni
Vestri ásamt heimaliðinu Þrótti Fjarðabyggð, í Laugardalshöllinni

Úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í blaki stendur nú sem hæst og er lið Vestra þar í eldlínunni. Fyrstu leikir úrslitakeppninnar fóru fram fyrir páska, en í þeim höfðu Vestramenn betur gegn bæði Stálúlfi og HK. Nú um helgina háðu þeir svo tveggja leikja einvígi við Þrótt Fjarðabyggð um sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins og fóru báðir leikirnir fram í Reykjavík. Sá fyrri var spilaður á föstudaginn og þar hafði Vestri sigur 3-0. Seinni leikurinn var spilaður á sunnudag og aftur voru Vestramenn sterkari,  lönduðu 3-1 og tryggðu sér um leið sæti í undanúrslitunum.

Undanúrslitin hefjast strax á morgun, mánudag. Það er óhætt að segja að verkefnið sem þar bíður sé talsvert krefjandi því mótherninn er enginn annar en lið Íslands- og bikarmeistara Hamars frá Hveragerði. Lið Hamars er eitt það allra besta sem sést hefur í íslensku blaki um langt skeið og hefur liðið í raun einokað alla titla sem í boði hafa verið undanfarin ár. En nú er vonandi komið að því að þeir þurfi að játa sig sigraða. Einvígi Vestra og Hamars hefst í Hveragerði á mánudag, eins og fyrr segir, en síðan mætast liðin aftur á Ísafirði fimmtudaginn 20. apríl. Vonandi hafa sem flestir tök á að mæta á Torfnesið og hvetja strákana til sigurs.

Deila