Fréttir

Vestri í undanúrslit Kjörísbikarsins 3 árið í röð

Blak | 27.02.2023
Kátir Vestrastrákar á Húsavík
Kátir Vestrastrákar á Húsavík

Karlalið Vestra í blaki, lagði land undir fót um liðna helgi, þegar þeir fóru og heimsóttu Völsung á Húsavík í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins. Völsungar höfðu áður fengið Blakfélag Hafnarfjarðar í heimsókn og lagt hafnfirðingana að velli nokkuð sannfærandi 3-0.

Vestri eru eins og alkuna er í fjórða sæti úrvalsdeildar, en Völsungar eru í efsta sæti 2. deildar.  Vel var mætt í PCC höllina á Húsavík, en talið er að áhorfendur hafi verið um 150 talsins og mikil stemming.

Mjög öflugt blakstarf er hjá Völsungi og er karlaliðið þeirra í uppbyggingarfasa, ungt og spennandi, undir handleiðslu okkar gamla þjálfara Tihomir Paunovski.  Liðið er að miklu leiti sama lið og vann Kjörísbikarinn í U20 móti fyrir rúmri viku síðan, þar sem úrslitaleikurinn var einmitt gegn U20 liði Vestra, en sá leikur endaði í oddahrinu og tóku Völsungar þá hrinu með minnsta mögulega mun, 15-13.

En það er stundum sagt um svona leiki, að þetta hafi verið skyldusigur hjá Vestra.  Okkar menn beittu hinsvegar ekki sínu sterkasta liði, heldur voru nokkrir ungir strákar með í ferðinni sem fengu að spila fullt og stóðu sig býsna vel.  Leikurinn varð því jafnari fyrir vikið, en Vestri vann leikinn 3-1 (25-18, 25-22, 25-27, 25-19).

Stigahæstir í liði heimamanna voru þeir Bjarki Sveinsson með 15 stig og Aron Bjarki Kristjánsson með 14 stig.  En í liði Vestra voru stigahæstir þeir Antonio Ortiz með 14 stig, Franco Molina með 13 og þeir Sverrir Bjarki Svavarsson og Juan Escalona með 10 stig hvor.

Framundan er því úrslitahelgi Kjörísbikarsins, sem fer fram dagana 9-12 mars nk.  Í pottinum karla megin eru Vestri, Afturelding, KA og Hamar.  Kvennamegin eru svo Völsungur, Þróttur Fjarðarbyggð, HK og KA.  Í hádeginu, miðvikudaginn 1. mars verður dregið hvaða lið eigast við í undanúrslitaleikunum og verður streymt frá úrdrættinum á FB síðu BLI.

 

Deila