Fréttir

Yngriflokkaþjálfarar í fræðsluferð

Blak | 15.02.2010

Á dögunum fóru krakkablakþjálfarar Skells í fræðsluferð til Reykjavíkur. Félagið fékk styrk fyrir menntun yngriflokkaþjálfara sem nýttur var í þessa ferð. Tilgangurinn var að fylgjast með æfingum hjá öðrum félögum og fá góð ráð hjá reyndari þjálfurum.

 

Farið var á æfingar hjá krökkum frá sjötta og upp í þriðja flokk hjá HK og Stjörnunni. Við lærðum margar nýjar æfingar og einnig lærðum við ýmislegt sem tengist félagslegri og uppeldislegri hlið þjálfunar. Við fengum líka staðfestingu á því að við erum að vinna á svipaðan hátt og aðrir þjálfarar og að krakkarnir okkar eru virkilega duglegir. Við hittum síðan sérstaklega Ástu Sigrúnu Gylfadóttur, þjálfara hjá HK, sem ræddi við okkur um helstu atriði krakkablakþjálfunar og fór með okkur í gegnum nokkrar æfingar.

 

Við fórum sjálfar á æfingu hjá öldungaliði HK (við urðum að bæta upp æfingu sem við misstum af heima) og fylgdumst með æfingum hjá fleiri fullorðinsliðum.

 

Ferðin var virkilega gagnleg og það er að okkar mati mikilvægt fyrir alla þjálfara að vera duglegir að sækja námskeið eða mennta sig á annan hátt til að staðna ekki.

Krakkablakþjálfarar Skells:
Harpa, Kolbrún, Sólveig og Þorgerður

Deila