Fréttir

Ólympísk fjallahjólakeppni á nýrri og spennandi braut á Ísafirði 

Hjólreiðar | 16.07.2019
Hér hjólar Hólmfríður Vala niður Múlann.
Hér hjólar Hólmfríður Vala niður Múlann.

Félagsmenn Vestra hjólreiða eru í óðaönn að undirbúa Íslandsmeistaramót í ólympískum fjallahjólareiðum (XCO) í samstarfi, og að beiðni, Hjólreiðasambands Íslands, sem haldið verður 21. júlí n.k. Mótið verður haldið upp á Dal, í nýrri fjallahjólabraut á Seljalandsdal, og er brautin orðin klár. Brautin er unnin í samstarfi við Skíðasvæði Ísafjarðar og að hluta til á grunni skíðagöngubrautarinnar á Seljalandsdal. Það er því skemmtilegt að sú útivistarparadís fái meiri notkun allt árið. 

Brautin er rúmlega 4 km löng og hjóla keppendur mismarga hringi eftir flokkum. Ólympisk fjallahjólakeppni (XCO) snýst um að keppendur hjóli nokkra hringi í fjallahjólabraut, fjöldi hringja er áætlaður út frá hraðasta keppanda en sá keppandi ætti að hjóla í ca 90mín. Keppnin er útsláttarkeppni og detta keppendur út þegar þeir eru hringaðir af öðrum keppanda í sama flokki.

Keppnin er sérstaklega áhorfendavæn og verður mikið lagt upp úr stuði og stemmingu á dalnum.

Strax eftir Íslandsmeistaramótið verður ekki síður mikilvæg keppni en þá verður opið Vestfjarðamót barna og unglinga í fjallahjólreiðum.

Eins og Ísfirðingar hafa tekið eftir hefur mikil uppbygging í fjallahjólaleiðum í Tungudal og á Seljalandsdal nýir fjallahjólastígar eru að taka á sig mynd. Stígarnir taka allir nöfn frá örnefnum á svæðinu, svo sem Hnífarnir, Bunan, Tungan og Múlinn. Stígarnir hafa allir verið unnir í sjálfboða vinnu og öll hjálp er mjög vel þegin við áframhaldandi vinnu og að hjóla þá til. Þeir sem hafa áhuga á að koma að leggja málefninu lið get lagt inn á félagið í gegnum Aur á símanúmerið 849-9111.

Hjólaþyrstir hafa í nægu að snúast og hvetjum við ykkur öll til að fylgjast með eða taka þátt í Íslandsmótinu, Vestfjarðamótinu eða Skálavíkurhjólreiðunum og Vesturgötunni sem Hlaupahátíðin stendur fyrir. 

Við erum farin að hlakka til helgarinnar og vonandi þið líka.

#fjallahjólabærinn #vestrihjol

Deila