Fréttir

1-3 tap og spenna fyrir bikarleik

Knattspyrna | 21.06.2010

BÍ/Bolungarvík tapaði á móti Aftureldingu frá Mosfellsbæ síðastliðinn laugardag á Skeiðisvelli. Mark heimamanna skoraði Andri Rúnar Bjarnason úr vítaspyrnu í seinni hálfleik. Hægt er að lesa greinargóða skýrslu af leiknum hér á fotbolti.net. Næsti leikur liðsins er á móti Stjörnunni frá Garðabæ í 16-liða úrslitum bikarsins. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og fer fram á Torfnesvelli.

Bibol.is fékk miðjumanninn Sigþór Snorrason(Lucas Scott okkar vestfirðinga) til að útskýra hvað fór úrskeiðis á móti Aftureldingu og ræða næstkomandi leik í bikar.

Hvað fannst þér um leikinn?
Mér fannst við ekki mæta til leiks í fyrri hálfleik, en vöknuðum aðeins í seinni hálfleik. Það dugði bara ekki.

Mér fannst menn ekki höndla það nógu vel að lenda undir snemma leiks og fannst liðið mjöög andlaust. Fyrir utan kannski Sigurgeir, sem var eini maðurinn sem sýndi hvað í honum býr. Var frábær í þessum leik.

Vanmat á andstæðingnum eftir gott gengi að undanförnu?
Vanmat og ekki vanmat, held að menn hafi bara ekki verið tilbúnir í leikinn þegar hann var flautaður á. Hvort að menn hafi búist við auðveldum leik eða haldið bara að við værum svona ótrúlega góðir og þetta myndi allt gerast að sjálfu sér. Eða jafnvel þá bara farnir að hugsa um leikinn á miðvikudaginn, það verður bara hver og einn leikmaður að gera upp við sjálfan sig. Svona fyrri hálfleikur er ekki bjóðandi stuðningsmönnum okkar, fólki sem borgar sig inn á leik til að styðja okkur og fær andlaust lið til leiks.

En lið Aftureldingar?
Afturelding fannst mér mjög duglegir, en ekkert mikill fótbolti hjá þeim kannski. En þeir mættu skilst mér með það að markmiði að spila löngum boltum á vörnina hjá okkur, sem gaf þeim 2 mörk. Dómararnir voru fínir miðað við það sem ég sá, en það voru einhverjir sem vildu meina að 2 mörk hefðu átt að vera dæmd af hjá aftureldingu vegna rangstöðu. Ég gat ekki séð neitt sjálfur að þeim mörkum, þetta var fyrst og fremst okkur að kenna en ekki dómgæslunni.

Spenna fyrir bikarleikinn á miðvikudaginn?
Held að það sé erfitt að vera annað, finnst líka skynja mikla eftirvæntingu hjá fólki í bænum. Þannig að ég býst bara við alveg hörku stemmningu. Vona bara að fólk mæti til þess að styðja okkur, og hjálpi okkur, í stað þess að sitja bara og horfa. Við eigum eftir að þurfa á góðum stuðningi að halda því ætlum að láta þá hafa fyrir þessum leik.

Deila