BÍ/Bolungarvík tók á móti KS/Leiftri í bongóblíðu á Torfnesvelli í dag. Í lið heimamanna vantaði fyrirliðann Emil Pálsson, Alfreð þjálfara og Pétur Run sem sat þó á bekknum vegna smávægilegra meiðsla. Liðið var þannig skipað: Robbi - Gunnar Már, Sigurgeir, Nedic, Gulli - Sigþór, Milan, Óttar - Andri, Addi, Pétur.
Það voru ekki liðnar nema tvær mínútur af leiknum þegar Gunnar Már kemur boltanum í netið eftir barning í teignum. KS/Leiftur hefja sókn og fá víti strax eftir markið en Robbi gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna glæsilega. Fyrsta hálftíman voru KS/Leiftur ákveðnari en við og áttu markvissari sóknaraðgerðir. Robbi hélt okkur á floti á þessum kafla. Seinustu 10. mínúturnar voru þó betri hjá okkur. 1-0 í hálfleik.
Það voru ekki liðnar nema 18. sekúndur af seinni hálfleik þegar Andri kom okkur í 2-0. Haffi fær boltann eftir miðju, hann sendir hann upp kantinn á Adda sem kemur honum á Milan sem stingur honum inn á Andra sem klárar færið vel. Eftir þetta tókum við öll völd á vellinum og vorum betra liðið allt til enda. Óttar Kristinn bætir síðan við þriðja markinu á 85. mínútu eftir harða stórskotahríð að marki KS/Leifturs. 3-0 sigur staðreynd.
Allt liðið spilaði mjög vel í dag en þó ber sérstaklega að nefna Milan Krivokapic og Róbert Örn sem voru mjög góðir í dag. Robbi hefur núna haldið markinu hreinu í 540. mínútur en það kannski skiptir ekki mestu máli. Aðalmálið er skora oftar en mótherjinn og vinna leikina, á meðan við gerum það erum við í góðum málum. Næsti leikur er útileikur við Hamar frá Hveragerði næsta laugardag kl.13:00. Einnig verður dregið í bikarnum í hádeginu á morgun og verður drátturinn sýndur í beinni útsendingu á sporttv.is
Deila