Fréttir

4-3 heimasigur á Selfyssingum í dag

Knattspyrna | 01.06.2013

Það var margt um manninn á Torfnesvelli þegar BÍ/Bolungarvík tók á móti Selfyssingum í kulda og norðanátt. Leikmenn BÍ/Bolungarvíkur voru töluvert sterkari í fyrri hálfleik þar sem þeir léku með vindinn í bakið og leið ekki langur tími þar til að fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós.

Ben Everson sem var mjög sprækur í leiknum í dag fór upp vinstri kantinn, sótti upp að miðju vallarins og skaut þéttingsfastann bolta í nærhornið, en Jóhann Ólafur í marki Selfyssinga náði ekki til boltans, 1 - 0 á fjórðu mínútu.

BÍ menn sóttu fast á Selfyssinga og stjórnaði Nigel Quashie miðju heimamanna mjög vel en heimamenn hefðu getað sett fleiri mörk á þennan leik, en Max Touloute átti 2 mjög góð færi sem að hann nýtti ekki nægilega vel.

Á 17. mínútu skoruðu síðan Selfyssingar gott mark en Joseph Yoffe skoraði þá framhjá Alejandro í marki BÍ manna.

Valgeir Valgeirsson hefur ekki notið veðursins fyrir vestan en hann átti dapran leik í dag, og voru nokkur atriði sem að má véfengja.

Nigel Quashie skoraði mjög flott mark um það bil 7 metrum fyrir utan teiginn, bylmingsskot sem Jóhann Ólafur átti ekki séns í og fóru leikmenn inn í klefann í stöðunni 2 - 1 heimamönnum í vil.

Í seinni hálfleik voru BÍ menn ákveðnari og pressuðu mikið á öftustu menn Selfyssinga, og skapaðist oft mikil hætta af því.

Á 49 mínútu leiksins komust BÍ í 3 - 1 þegar Ben Everson skaut í varnarmann Selfyssinga og inn eftir klafs í teignum. Það var þó ekki hægt að afskrifa Selfyssinga og bætti Yoffe öðru marki sínu við og staðan orðin 3-2 eftir 55 mínútur.

Á 62. mínútu átti Hafsteinn Rúnar Helgason þvílíka aukaspyrnu alveg uppi í hægra horninu en Jóhann Ólafur átti þvílíka markvörslu og bjargaði Selfyssingum frá marki.

Leikmenn BÍ/Bolungarvíkur sýndu oft á tíðum mjög góðann fótbolta og skilaði það sér með marki frá Alexander Veigari eftir undirbúning frá Ben Everson.

Leikurinn var mjög spennandi í lokin en Selfyssingar fóru að sækja meira á heimamenn á lokamínútunum.

Það skilaði sér þegar Valgeir Valgeirsson dæmdi víti á 88. mínútu og kórónaði Yoffe þrennuna þegar hann skoraði mjög örugglega úr vítinu.

4-3 sigur BÍ/Bolungarvíkur staðreynd og Ben Everson maður leiksins með 2 mörk og stoðsendingu, en hann pressaði stíft á varnarmenn Selfyssinga allan leikinn.

Deila