Albert Ingi Jóhannsson leikmaður Vestra mun í vikunni fara til danska stórliðsins Bröndby og æfa í knattspyrnuakademíu félagins.
Albert Ingi er fæddur 2009 og hefur verið í æfingahóp meistaraflokks karla hjá Vestra frá því í haust. Á dögunum lék hann sína fyrstu leiki með meistaraflokki Vestra gegn FH og Stjörnunni.
Bröndby er eitt allra stærsta félag Danmerkur og þar með Norðurlanda. Margar af skærustu knattspyrnustjörnum danskrar knattspyrnusögu hafa leikið með Bröndby og má þar nefna bræðurna Michael og Brian Laudrup og markmanninn Peter Schmeichel.
Það er mikill metnaður í yngri flokka starfi knattspyrnudeildar Vestra. Æfingar fara fram á mörgum stöðum hér á svæðinu. 2.-4. flokkur kk og kvk æfir eingöngu á gervigrasvellinum á Torfnesi. 5.-8. flokkur kk og kvk æfa í íþróttahúsunum í Bolungarvík, Torfnesi og Austurvegi. Leikmenn í 2.-4. flokki eru einnig í styrktarþjálfun einu sinni í viku og fara þær æfingar fram í Stöðinni - Heilsurækt. Þegar aðstæður eru þannig að ekki er hægt að æfa á gervigrasvellinum á Torfnesi t.d. vegna klaka þá hafa þessir flokkar ekki tök á að fara inn í íþróttahúsin. Efri hæðin í vallarhúsinu á Torfnesi hefur þá oft verið nýtt í allskonar liðleika og styrkleikaæfingar. Einnig hafa leikmenn í þessum flokkum æft í sundlaugunum auk fleirri æfinga í Stöðinni Heilsurækt.
Framtíðin er björt hjá knattspyrnudeildinni, mikill metnaður er bæði hjá iðkendum og öðrum sem að félaginu standa. Síðasta ár hefur mikið verið unnið með ýmsa þætti líkt og hugarfar leikmanna og þjálfara. Ekki síður höfum við unnið að því að setja upp heildrænt æfingaplan sem byrjar í yngstu flokkunum og nær alla leið upp í meistaraflokkana. Aðstöðumálin eru enn mikil áskorun fyrir félagið yfir vetrartímann. Þrátt fyrir miklar endurbætur og uppbyggingu á svæðinu. Vetrar aðstaðan er ennþá nokkuð þung þegar veður og vindar eru okkur ekki í hag. Við bindum miklar vonir við að áfram verði farið í fjárfestingar á svæðinu til að gera íþróttinni kleift að æfa við góðar aðstæður allan ársins hring.
ÁFRAM VESTRI
Deila