Fréttir

Allt á fullu í boltanum

Knattspyrna | 22.05.2023

Það var nóg um að vera hjá liðum Vestra um liðna helgi. 3.flokkur drengja fór suður og spiluðu þar tvo leiki, við Þrótt og Hauka. Það er skemmtilegt frá því að segja að í liði 3.flokks koma iðkendur af stór Vestfjarðasvæðinu, en þeir eru að koma frá Ísafirði, Hnífsdal, Patreskfirði, Bolungarvík, Tálknafirði og Hólmavík. Algjörlega frábær samvinna þarna og virkilega flottur hópur. Úrslit leikjanna féllu ekki okkur í vil í þessari ferð en hópurinn stóð sig virkilega vel. 

4.flokkur stúlkna tók á móti Aftureldingu hér heima. Virkilega skemmtilegur leikur sem hefði getað fallið hvoru megin sem er, en í þetta skipti voru það gestirnir sem báru sigur út býtum og enduðu leikar 1-2. Okkar stelpur stóðu sig þó gríðarlega vel við erfiðar aðstæður.

5.flokkur stúlkna hófu einnig leik á Íslandsmóti þessa helgi með því að spila tvo leiki hér heima á móti Hamar/Ægir. Erfiðir leikir við erfiðar aðstæður þar sem veðrið var ekki upp á marga fiska þessa daga. Það breytti því þó ekki að stelpurnar stóðu sig virkilega vel, þær unnu fyrri leikinn en Hamar/Ægir bar sigur úr býtum í þeim seinni. Eftir leikinn fóru stelpurnar í sund og fengu sér saman ís. Samvera og hópefli er gríðarlega mikilvægt í þessu öllu saman. 

Það er nóg um að vera næstu daga og vikur en um næstu helgi mun 5.flokkur drengja hefja leika á Íslandsmóti með dagsferð í Borgarnes. 

Áfram Vestri ! 

Deila