Fréttir

BÍ/Bolungarvík - Hamar (Umfjöllun)

Knattspyrna | 10.08.2010 BÍ/Bolungarvík - Hamar
Þriðjud. 10. ágúst kl. 19:00
Torfnesvöllur, Ísafirði
Íslandsmót 2. Deild

BÍ/Bolungarvík tók á móti Hamar frá Hveragerði í 16. umferð 2. Deildar á Torfnesvelli í kvöld. Veðuraðstæður voru ágætar, skýjað og örlítill vindur sem hafði varla áhrif á leikinn. Liðið hafði sigrað seinsta leik á móti KS/Leiftri 0-1 á útivelli en þar áður gjörsigrað Hvötá heimavelli, 7-1. Hamar var fyrir leikinn í níunda sæti deildarinnar með 17 stig. Hamar þurftu á stigum að halda til að sogast ekki niður í botnbaráttu fyrir loka umferðirnar.

Byrjunarliðið var þannig skipað: (Sjá mynd nr.2)
Róbert, Haffi, Dalibor, Sigurgeir, Sigþór, Andri S., Emil, Milan, Gunnar Már, Andri R. og Jónmundur
Á bekknum voru Guðni Páll, Guðmundur, Pétur Geir, Óttar, Matti.
Gulli tók út leikbann og Addi er meiddur eftir leikinn gegn KS/Leiftri.

Leikurinn var mjög svipaður og fyrri leikur liðanna í sumar. BÍ/Bolungarvík með boltann nánast allan tímann á meðan Hamar bökkuðu gáfu lítið af færum á sig. Við fengum að vera með boltann í vörninni og á miðjunni en þegar kom að seinasta þriðjungi vallarins vörðust Hamar okkur auðveldlega þar sem lítið var um hreyfanleika á mönnum og "tempóíð" í spilinu mjög hægt. Við uppskárum þó langbesta færi leiksins í fyrri hálfleik þegar boltinn einhvern veginn hrökk inn fyrir vörn Hamars og beint á Andra sem var kominn í dauðafæri einn á móti markmanni en skaut beint á hann(Mynd nr.3). Hamarsmenn ógnuðu lítið sem ekki neitt og réðu Sigurgeir og Dalibor auðveldlega við eina sóknarmann gestanna. 0-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri, við með boltann og gestirnir að verjast. Heimamenn voru þolinmóður en það vantaði alltaf örlítið upp á til að komast í færi. Það var ekki fyrr en Emil Pálsson tók sig til á 55. mínútu og spólaði sig framhjá tveim varnarmönnum gestanna og lagði boltann í netið framhjá markmanni Hamars (sjá mynd nr.4). 1-0 fyrir heimamenn. Eftir að fyrsta markið var komið þá þurftu gestirnir að fara færa sig framar og þá fór að myndast meira pláss fyrir sóknarmenn okkar á seinasta þriðjungnum. Nokkrum mínútum eftir markið vorum við komnir í 2-0 eftir að boltinn barst út á Emil sem skaut að marki með vinstri á vítateigslínunni og boltinn söng í netinu(sjá mynd nr.5). Eftir markið gerðu gestirnir breytingu og bættu aðeins í sóknina, þeir höfðu fram að þessu ekki átt eitt einasta færi en þegar um 20. mínútur voru eftir af leiknum ná þeir að stinga inn á sóknarmann sinn sem nær að koma boltanum framhjá Róberti og í netið. Miðja, vörn og markmaður hefðu öll geta komið í veg fyrir þetta mark örlítið fyrr ef menn hefðu verið á tánum. 2-1 og gestirnir komnir inn í leikinn á ný. Næstu fimm mínútur var smá skjálfti í mönnum en síðan fóru menn að spila eins og þeir eiga að sér og það skilaði sér í marki fimm mínútum fyrir leikslok eftir góða skyndisókn. Jónmundur fær boltann inn fyrir vörn Hamars en er í þröngu færi, hann rennir boltanum til hliðar á Andra sem er einn með opið markið og rennir boltanum auðveldlega í netið(sjá mynd nr.6). Staðan orðin 3-1 fyrir okkur en Hamarsmenn náðu að skapa sér sitt annað færi í leiknum í uppbótartíma þegar leikmaður þeirra skallaði fyrirgjöf í stöngina. Pétur Guðmundsson dómari leiksins flautaði þá í sjötta skiptið í flautuna sína og góður 3-1 skyldusigur staðreynd.

Óttar kom inn á fyrir Milan, Guðmundur fyrir Gunnar Má og Guðni Páll inn á fyrir Haffa.

Uppspilið hjá liðinu er ágætt eins og margoft hefur komið fram, þó mega leikmenn liðsins tala betur sín á milli og láta miðjumenn vita ef þeir hafa tíma til að snúa því oft töpuðust góðir sénsar á sóknum þegar sendingar komu tilbaka og áttu Hamarsmenn auðvelt með að koma sér í stöður þegar við höfðum fært þá úr stöðum. Flest allir spiluðu á pari og var oft eins og menn næðu ekki að gíra sig á botn og voru því á hálfum hraða. Sigurgeir er búinn að vera magnaður í vörninni það sem af er sumri og Emil Pálssson sýndi okkur hvað hann kann en hann hefur verið heldur rólegur það sem af er sumri. Róbert Örn stóð vaktina vel í markinu en hefur örugglega haft meira að gera heldur en í kvöld. Hann hefði mögulega mátt fara á fullu út á móti sóknarmanni Hamars í markinu þeirra því hann virtist vera á undan en tók sénsins á að reyna verja skotið. Hann hefði líka fokið útaf með rautt hefði hann orðið of seinn í návígið.

Liðið hefur komið sér vel fyrir í öðru sætinu, níu stig skilja okkur að í þriðja sætið en þar situr Höttur. Við eigum eftir að fá þá í heimsókn þannig að það er NÓG eftir af stigum og við hvergi nærri öruggir með okkar sæti.
Deila