Fréttir

BÍ/Bolungarvík - KV (Umfjöllun)

Knattspyrna | 25.05.2010

BÍ/Bolungarvík - KV
Lau. 22. maí kl.14:00
Torfnesvöllur, Ísafirði
Íslandsmót 2. Deild

BÍ/Bolungarvík tók á móti KV í annarri umferð 2. Deildar á Torfnesvelli síðastliðinn laugardag. Veðuraðstæður voru eins og best verður á kosið, glampandi sól með örlitlum vindi. Liðið hafði sigrað tvo seinustu leiki, ÍH í deild og Höfrung í bikar. KV liðið tapaði hins vegar í fyrstu umferðinni fyrir Víking Ólafsvík.

Byrjunarliðið var þannig(sjá mynd nr.1)
Á varamannabekknum sátu Hjörvar, Matti, Addi, Guðni Páll og Ásgeir Guðmunds. Dalibor Nedic, Haffi og Pétur Run voru ekki með að þessu sinni.

Leikurinn hófst neð mikilli baráttu og minna var lagt á góða spilamennsku. KV menn voru hættulegri til að byrja með í tilþrifalitlum fyrri hálfleik. Þegar líða tók á leikinn fóru heimamenn að færa sig upp á skaftið og voru að skapa sér nokkur hálffæri. Það var síðan á 37. mínútu sem Pétur Geir kemur knettinum í markið með því að vippa boltanum í markskeytin fjær. Hann og Milan voru báðir komnir í gegn eftir frábæran undirbúning frá Andra. Pétur Geir meiddist í nára eftir markið og var síðan skipt útaf í hálfleik. En hálfleiknum var ekki lokið því Gunnlaugi Jónassyni tókst að næla sér í sitt annað gula spjald með því að tækla KV mann illa upp við þeirra eigin hornfána. Fram að þessu hafði Gunnlaugur verið mjög glæfralegur í tæklingum og Kristinn Jakobsson sá engan annan kost í stöðunni en að vísa Gulla af velli. 1-0 í hálfleik.

Í seinni hálfleik vorum við mikið mun betri þrátt fyrir að vera einum færri lengst af en þó átti liðsmunurinn eftir að jafnast út seinna í leiknum. Pétur Geir fór útaf í hálfleik og Matti kom inn, hann fór á kantinn og Sigþór í bakvörð. Milan og Emil tóku miðju og Óttar var einn upp á topp. KV menn áttu álitlegar sóknir sem stoppuðu oft á rangstöðu gildru heimamanna. Bæði lið sköpuðu sér tvö til þrjú færi áður en Emil Pálsson brýst upp hægri vænginn, fer framhjá tveimur leikmönnum og gefur glæsilega sendingu fyrir markið þar sem Óttar tekur boltann á lofti og setur hann í markið. 2-0 eftir 63.mínútur.

Á 77. mínútu fær leikmaður KV sitt annað gula spjald í leiknum eftir tuð í dómaranum en hann taldi sig hafa átt að fá vítaspyrnu eftir samskipti sín við Gunnar Má í teignum. Leikmannafjöldinn orðin jafn og heimamenn með yfirtökin í leiknum. Eftir þetta gerðist fátt þangað til í uppbótartíma þegar að Matti á stungusendingu inn fyrir vörn KV manna á Andra sem fer framhjá markverðinum og leggur boltann í netið. Lokatölur 3-0.

Liðið var lengi í gang í þessum leik og sóknarleikurinn stirður til að byrja með. Varnarleikur liðsins hlýtur að vera í góðu lagi enda búnir að halda hreinu í fyrstu tveim leikjunum. Við erum með mikil gæði í marki og miðvarðarstöðum sem og á miðjunni. Þegar menn fara að róa sig á boltanum og vanda sendingar þá fer sóknarleikurinn sjálfkrafa í gang og þá standast fá lið okkur snúningin í þessari deild. Mjög góður sigur þó að liðið eigið ennþá mikið inni.

Búið er að bæta við myndalbúmi frá leiknum og einnig vill bibol.is þakka Valdísi Maríu og Sigurvini fyrir hjálpina.

Deila