Fréttir

BÍ/Bolungarvík - Leiknir

Knattspyrna | 04.12.2010 BÍ/Bolungarvík tók á móti Leikni Reykjavík á Akranesi kl.13 í dag. Fyrir viku síðan töpuðu okkar menn illa fyrir ÍA en leikurinn var þó góð kennslustund. Menn tóku daginn snemma og voru komnir upp á skaga kl.11 þar sem Gaui reiddi fram ristað brauð og ávexti. Eftir að menn höfðu fengið næringu var komið að töflufundi þar sem Guðjón tók varnarleikinn í gegn hjá okkar mönnum og sýndi þeim nokkur grunnatriði í varnarleik. Tveir nýjir leikmenn tóku þátt í leiknum sem ekki hafa verið með okkur áður. Þetta voru þeir Tórður Thomsen markmaður sem spilaði seinast með færeysku meisturunum í HB og Alexander Veigar Þórarinsson sem spilaði í sumar með Fram. Einnig lék Birkir Halldór Sverrisson fyrsta leik sinn með okkur eftir nokkurt hlé en hann hóf æfingar fyrir stuttu.

Byrjunarliðið var þannig skipað:
Tórður Thomsen - Haffi, Atli Guðjónsson, Birkir, Sigurgeir - Sigþór, Gunnar Már, Sölvi GylfasonArnór Þrastarson, Alexander Veigar Þórarinsson - Andri Rúnar.
Á bekknum sátu þeir Guðni Páll, Ásgeir Guðmunds, Axel Lárusson og Óttar.

Við mættum mun betur stemmdir til leiks heldur en á móti ÍA, þó svo að Leiknir hafi verið mikið mun meira með boltann þá voru menn að spila mjög þéttan varnarleik, fóru á fullu í návígi og ekkert gefið eftir. Leikinsmenn náðu nokkrum sinnum að skapa sér álitlegar sóknir sem annað hvort stoppuðu á Birki og Atla eða Tórði í markinu sem var mjög öflugur í dag. Ólíkt við leikinn í síðustu viku þá voru við að ná að brjóta niður margar sóknir Leiknismanna en tókst illa að gera eitthvað marktækt við boltann þegar að því kom. Þó áttum við 2-3 tækifæri og með smá heppni hefðum við getað skorað úr einu þeirra. 0-0 í hálfleik.

Í seinni hálfleik þá skiptum við varamönnunum inn á og "róteruðum" á 15 mín. kafla á meðan Leiknismenn voru með mun stærri hóp en við í leiknum. Það fór að liggja vel á okkur um miðbik hálfleiksins en flest allar fyrirgjafir og skot stoppuðu á Tórði. Leiknismenn náðu þó góðri sókn þegar um tuttugu mínútur voru eftir og skoruðu laglegt mark eftir flott spil, staðan 0-1. Eftir það átti Tórður stórbrotna markvörslu frá einum leikmanni Leiknis úr dauðafæri. Síðustu tíu mínúturnar fór töluvert að losna milli miðju og varnar hjá Leikni og áttum við nokkra "sénsa" á að sækja hratt á þá en lítið gekk. Það var síðan á 90. mínútu þegar Andri Rúnar kemst í stöðuna "einn á einn" á móti varnarmanni í vítateignum. Andri tekur fjögur skæri í öðru veldi og fer leiftursnöggt til hliðar og skilur varnarmanninn eftir á hælunum sem þó reynir að ná til boltans en fellir Andra klaufalega. Vítaspyrna dæmd og Andri steig sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Stuttu seinna flautaði dómarinn til leiksloka og lokatölur 1-1.

Ágætis leikur í dag hjá okkur þó sóknarleikurinn sé ekki alveg kominn í gang. Það má segja að jafnteflið hafi verið sanngjörn úrslit og eru þessir leikir að nýtast okkur mjög vel í undirbúningi fyrir sumarið. Liðið lék mun betur heldur en í síðustu viku þó færin hafi verið betri fyrir viku. Áætlað er að spila við Tindastól/Hvöt á næsta laugardag. Deila