Fréttir

BÍ/Bolungarvík - Selfoss (umfjöllun)

Knattspyrna | 01.07.2011 BÍ/Bolungarvík 0 - 1 Selfoss
0-1 Ibrahima N'Diaye ('38)

Sumarið lét loksins á sér kræla fyrir vestan í dag og aðstæður voru eins og best verður á kosið þegar BÍ/Bolungarvík tók á móti Selfyssingum. Þétt var setið í brekkunni á Torfnesvelli, góð stemmning og ánægjulegt hversu margir stuðningsmenn ferðuðust með gestaliðinu.

Þá að leiknum, Selfyssingar voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum, fyrsta færi þeirra kom strax á þriðju mínútu þegar Norðmaðurinn Endre Ove Brenne átti skalla eftir hornspyrnu sem heimamenn björguðu á línu. Ísfirðingar/Bolvíkingar svöruðu þó stuttu seinna þegar Tomi Ameobi fékk gott færi eftir að Jóhann Ólafur Sigurðsson, markvörður gestanna, náði ekki út í fyrirgjöf heimamanna, boltinn barst til Ameobi, sem hitti boltann ekki vel og færið rann út í sandinn. Þetta gerðist á 12.mínútu, og þar með lauk sóknartilburðum heimamanna í fyrri hálfleiknum. Selfyssingar stýrðu leiknum eftir þetta og sköpuðu sér nokkur færi. Eftir rúmlega 20 mínútna leik átti Babacar Sarr miðjumaður Selfoss skalla sem lenti ofan á þverslánni og nokkru seinna átti landi hans, Ibrahima N'Diaye skot framhjá eftir að Djúpmenn töpuðu boltanum á hættulegum stað.

Á 38.mínútu dró til tíðinda. Boltinn barst á vinstri væng Selfyssinga þar sem Joe Tillen, sendi lága sendingu inn í teig þar sem Mamadou N'Diaye var á undan Þórði Ingasyni markverði heimamanna í boltann. Hann hitti boltann reyndar ekki nógu vel, en það dugði til að koma boltanum fram hjá Þórði, liggjandi náði hann svo að skólfa boltanum yfir línuna. Ekki fallegasta markið en dýrmætt var það þegar upp var staðið.

Í hálfleik gerði Guðjón Þórðarson breytingu á liði BÍ/Bolungarvíkur, Andri Rúnar Bjarnason kom inn á vinstri kantinn í stað varnarmannsins Sigurgeirs Gíslasonar. Með þessu fóru þeir úr 5-4-1 yfir í 4-3-3 og var allt annað að sjá liðið í síðari hálfleik. Á fyrstu mínútu síðari hálfleiks kláraðist blek í penna undirritaðs, til allrar lukku gerðist ekkert á meðan og nýr penni fannst. Á 51.fyrstu mínútu skallaði Andri boltann í gegn fyrir fætur Tomi Ameobi sem virtist vera kominn einn í gegn en hann féll við eftir viðskipti við varnarmann, heimamenn vildu fá víti en ekkert var dæmt. Stuttu seinna komst Andri í gegn eftir langt útspark frá Þórði og afgreiddi boltann glæsilega framhjá Jóhanni markverði en boltinn fór í stöngina.

Selfyssingar sóttu öðru hvoru í seinni hálfleik en án þess þó að skapa sér dauðafæri, það besta kom þó þegar tæpar 20 mínútur lifðu leiks þegar Þórður varði góðan skalla yfir. Gestirnir björguðu svo á línu tíu mínútum fyrir leikslok þegar Nicky Deverdics átti skot eftir hornspyrnu. Heimamenn reyndu allt hvað þeir gátu en leikurinn fjaraði smám saman út eftir þetta. Lokatölur 0-1.

Bestur í liði heimamanna var Zoran Stamenic, sem hefur verið frábær í vörninni í síðustu leikjum, svo kom Andri Bjarnason mjög sprækur af bekknum.

Í jöfnu liði Selfoss þótti undirrituðum Babacar Sarr afar skeleggur, sterkur í návígum og vann flesta skallabolta. mjög góður sem djúpur á miðjunni.

Merkilegt var að mæta á fyrstudeildarslag á Ísafirði og sjá goðsagnirnar Loga Ólafsson og Guðjón Þórðarson leiða saman hesta sína, en í þetta skiptið hefur Logi vinninginn, varnarsinnuð uppstilling heimamanna gerði það að verkum að sóknarleikurinn gekk alls ekki upp, allt kantspil vantaði og Ameobi var einangraður frammi. Þetta var þó miklu betra eftir að Andri kom inn á og fjölgaði í sókninni. Selfyssingar eiga sigurinn skilið en þeir sýndu þó engar sparihliðar í þessum leik.

- Jón Ólafur Eiríksson -

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=110646#ixzz1QoSPYLlw Deila