Fréttir

BÍ/Bolungarvík - Þróttur

Knattspyrna | 19.01.2011 BÍ/Bolungarvík mætti Þrótti í Egilshöll í gærkvöldi. Leikmenn voru mættir kl. 20:30 í Egilshöll eða á svipuðum tíma og flautað var til leiks hjá Íslandi og Austurríki. Guðjón fór yfir leikaðferð og tilkynnti byrjunarlið á meðan stórglæsilegt þjálfarateymið sá til þess að allt var til staðar.

Byrjunarliðið var þannig skipað:
Þórður - Axel, Birkir, Atli, Sigurgeir - Gunnar Már, Sölvi, Alexander - Arnór, Óttar og Andri.
Á bekknum sátu þeir Ásgeir Guðmunds, Matti, Haffi og Sigþór.

Við hófum leikinn ágætlega, létum boltann ganga ágætlega í vörninni en erfiðlega gekk að skapa eitthvað marktækt fram á við. Þegar við svo komumst í góðar stöður á vellinum að þá vantaði upp á seinustu sendingu eða að menn væru almennilega á tánum. Þróttarar voru ágætir og gekk spil þeirra betur en okkar. Þeir sköpuðu sér þó ekki nein marktækifæri í leiknum en unnu þó 2-0. Fyrsta mark þeirra var sjálfsmark þegar undrabarnið Gunnar Már Elíasson ætlaði að hreinsa boltann burt en ekki vildi þó betur til en að sú hreinsun hafnaði í samherja og inn. Stuttu seinna komust Þróttarar inn fyrir vörn okkar, Þórður var kominn langt út og braut á sóknarmanni Þróttar utarlega í teignum. Dæmt var víti og úr því skoruðu þeir. 2-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn hófst á því að okkar menn klæddu sig í græn vesti þar sem búningar liðanna voru mjög líkir. Að sjálfsögðu verður búningunum kennt um mörk fyrri hálfleiksins. Seinni hálfleikurinn var ekki mikið fyrir augað. Þróttur mun meira með boltann en sköpuðu sér fá færi. Þórður í markinu greip líka vel inn í þegar á þurfti. Sóknarleikur okkar var nánast engin í seinni hálfleik og endaði leikurinn með 2-0 sigri Þróttar

Næsti æfingarleikur liðsins verður á laugardaginn á Akranesi kl. 13:00
Deila