Fréttir

BÍ/Bolungarvík slátraði Hvöt

Knattspyrna | 29.07.2010 BÍ/Bolungarvík - Hvöt
Miðv. 28. júlí kl. 20:00
Torfnesvöllur, Ísafirði
Íslandsmót 2. Deild

BÍ/Bolungarvík tók á móti Hvöt frá Blönduósi í fjórtándu umferð 2. Deildar á Torfnesvelli í gær. Veðuraðstæður voru eins og best verður á kosið, heiðskýrt og logn. Liðið hafði sigrað seinsta leik á móti KV(0-1) á útivelli en þar áður gert jafntefli við Víking Ólafsvík á útivelli. Hvöt var fyrir leikinn fimm stigum á eftir okkur í þriðja sæti deildarinnar. Þeir þurftu nauðsynlega á sigri að halda til að missa okkur ekki langt fram úr sér.

Byrjunarliðið var þannig skipað: (sjá mynd nr.2)
Róbert, Sigþór, Sigurgeir, Nedic, Haffi, Emil, Andri S., Milan, Andri R., Gunnar Már og Jónmundur.
Á bekknum voru Gulli, Guðni, Tómas Emil, Addi og Matti.
Pétur Run, Óttar og Pétur Geir voru ekki með að þessu sinni.

BÍ/Bolungarvík hóf þennan leik að krafti en það hefur oft vantað hjá okkur að byrja leikina almennilega. Höfum oftar en ekki þurft að bíða lengi eftir fyrsta marki leiksins til að geta skipt um nokkra gíra. Gunnar Már hóf markasúpuna á 6. mínútu með því að taka boltann á lofti fyrir utan teig og beint í samskeytin. Stórglæsilegt mark, 1-0 (sjá mynd nr.3). Eftir markið sköpuðu bæði lið sé nánast engin færi þó að við værum afgerandi betra liðið á vellinum. Næsta mark kom síðan á 30. mínútu og þar var að verki Jónmundur Grétarsson, nýgenginn til liðs við liðið. Haffi í bakverðinu átti háa sendingu yfir varnarmenn Hvatar og fyrir aftan þá lúrði Jónmundur sem potaði boltanum inn á meðan markmaðurinn var að ákveða sig hvort hann ætti að fara út í boltann eða ekki. Rétt fyrir lok hálfleiksins bætti Jónmundur við svipuðu marki en skallaði þá knöttinn í netið og aftur eftir sendingu frá Haffa. 3-0 fyrir heimamenn í hálfleik. Fyllilega verðskuldað, nýttum færin okkar og spiluðum mun betur fram á völlinn. Hvöt átti hinsvegar í erfiðleikum á síðasta þriðjungi vallarins.

Eftir um tíu mínútna leik í seinni hálfeik hafði Jónmundur fullkomnað þrennuna, Andri hafði þá átt skot að marki sem var varið en frákastið féll til Jónmundar sem kom boltanum í netið af stuttu færi. Hvatarmenn heimtuðu rangstöðu en ekkert dæmt. Eftir markið kom Gulli inn fyrir Haffa í hægri bakvörð en Haffi hafði lagt upp tvö mörk í leiknum til þessa. Næsta mark var mjög laglegt spil hjá heimamönnum, hófst hjá Robba í markinu áður en Emil kemur honum inn á Andra sem losar sig við varnarmann og leggur boltann snyrtilega í fjærhornið. Andri setti síðan tvö mörk fljótlega með skömmu millibili, bæði skot í teignum eftir fína spilamennsku liðsins. Hvöt náði síðan að klóra í bakkann með einu marki í lokin eftir að við höfðum haldið boltanum nánast allt seinasta korterið af leiknum. 7-1 sigur staðreynd.

Það var fínt að sjá að liðið byrjaði af fullum krafti í leiknum og vörnin var gríðarlega örugg. Sigþór hóf leik í bakverði og Andri Sigurjónsson tók hans stöðu á miðjunni. Sigþór og restin af vörninni voru mjög öruggir í kvöld. Nær allar sóknir Hvatar stoppuðu á Sigurgeiri og Dalibor. Emil, Milan og Andri skemmtu sér síðan konunglega á miðjunni, léku miðjumenn Hvatar oft grátt í leiknum. Gunnar Már stóð fyrir sínu eins og ávallt og Andri Rúnar ógnaði sífellt með hraða sínu. Jónmundur var síðan mjög öflugur frammi, hann var hreyfanlegur í sókninni og mjög vinnusamur þegar við höfðum ekki boltann. Tómas, Gulli og Matti áttu síðan góðar innkomur af bekknum. Núna þurfa menn að halda sér á jörðinni því enn eru 24 stig eftir í pottinum.

Lið Hvatar er mjög gott en þeir áttu ekki góðan dag. Milan Markovic og Albin Biloglavic hjálpuðu liðinu lítið í dag og virtust vera komnir vestur til að gera eitthvað allt annað en að spila fótbolta. Dómari leiksins gerði mjög vel að detta ekki á sama plan og þeir tveir en hann hefði mátt reka Markovic útaf í fyrri hálfleik þegar hann gaf Jónmundi ljótt olnbogaskot í andlitið. Deila