Fréttir

BÍ/Bolungarvík snéri taflinu við í seinni hálfleik

Knattspyrna | 13.07.2011 BÍ/Bolungarvík 2 - 1 KA
0-1 Elvar Páll Sigurðsson ('19)
1-1 Matthías Króknes Jóhannsson ('73)
2-1 Tomi Ameobi ('79)

Boðið var uppá landsbyggðarslag af bestu gerð á Torfnesvelli í kvöld þegar Akureyringar, Ísfirðingar og Bolvíkingar leiddu saman sína bestu hesta. Við stjórnvölin hjá báðum liðum eru svo þjálfarar frá knattspyrnubænum Akranesi, hinn afskaplega vel nefndi Gunnlaugur Jónsson og Guðjón Þórðarson. Uppskriftin fyrir einstaklega góðri knattspyrnu var því til staðar. Raunin varð þó önnur.

Varnarlína BÍ/Bolungarvíkur hefur ýmist verið skipuð fjórum eða fimm mönnum það sem af er sumri. Fjögurra manna línan sem Guðjón stillti upp í kvöld gaf til kynna að í kvöld átti að sækja. Um leið og flautað var til leiks kom leikskipulag gestanna í ljós, liggja til baka og reyna að sækja hratt upp völlinn þegar færi gæfist.

Strax frá upphafi héldu heimamenn boltanum og létu hann ganga sín á milli meðan KA menn lágu til baka og biðu færis. Þrátt fyrir að hafa boltann meira gekk þeim illa að skapa sér færi og öll skot þeirra enduðu í fangi Sandor Matus eða hittu ekki rammann.

Það voru þó gestirnir sem voru fyrri til að brjóta ísinn. Hin spræki Hallgrímur Mar Steingrímsson lék þá upp að endamörkum framhjá Sigurgeiri Sveini Gíslasyni og renndi boltanum út í teiginn þar sem að Elvar Páll Sigurðsson kom á hlaupinu úr djúpinu aleinn og óvaldaður og lagði boltann í netið af stuttu færi.

Ekki er hægt að segja að eitthvað markvert hafi gerst það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Heimamenn héldu áfram að vera meira með boltann en sköpuðu sér þó ekkert nema hálffæri og skotfæri fyrir utan teig. Segja má að áhorfendur hafi verið hálffegnir að komast í kaffipásu frá vægast sagt bragðdaufum leik þegar flautað var til hálfleiks.

Guðjón Þórðarson gerði eina breytingu í hálfleik og skipti Michael Abnett inná í stað Sigurgeirs í hægri bakvarðarstöðunni. Sigurgeir var tæpur á gulu spjaldi og hafði átt í eilitlu basli með Hallgrím Mar sem gerði lítið til að standa af sér návígi Sigurgeirs og því kannski óþarfi að tefla á tvær hættur og réttast að skipta honum útaf.

Seinni hálfleikurinn þróaðist keimlíkt þeim fyrri, heimamenn með boltann en gestirnir biðu rólegir til baka. Rétt eins og áður gekk þeim bláklæddu illa að brjóta niður varnarmúr norðanmanna og sköpuðu sér enginn afgerandi færi. Eftir rétt tæplega 70 mínútna leik gerði Guðjón aðra breytingu á sínu liði. Út af fór Gunnar Már Elíasson fyrirliði BÍ/Bolungarvíkur og inn á kom hinn ungi Matthías Króknes Jóhannsson. Nánast með sinni fyrstu snertingu átti Matthías frábæra fyrirgjöf sem Tomi Ameobi náði ekki til og boltinn barst til Alexanders Veigars Þórarinssonar sem átti greinilega ekki von á því að fá hann og hitti ekki markið úr dauðafæri.

Á 73.mínútu fékk Matthías svo boltann úti á hægri kantinum. Því næst lék hann snyrtilega framhjá tveimur varnarmönnum áður en hann lét vaða með bylmingsskoti sem Sandor Matus í markinu átti enga möguleika á að verja.

Fimm mínútum seinna var Matthías enn og aftur á ferðinni hann átti þá frábæra fyrirgjöf á fjærstöngina beint á kollinn á Alexander Veigari sem lagði hann fyrir Tomi Ameobi. Ameobi snéri þá af sér varnarmann áður en hann renndi boltanum með tánni yfir marklínuna af stuttu færi.

Þessar mínútur sem eftir voru reyndu gestirnir af efla sóknarleikinn í von um að jafna en voru fjarri því að takast ætlunarverk sitt.

Hjá KA mönnum bar Boris Lumbana af, Hallgrímur Mar og Elvar Páll voru mjög sprækir á köntunum í fyrri hálfleik en hurfu nánast í þeim síðari. Boris var þó mjög traustur og gerði vel í að halda aftur af Ameobi nánast allan leikinn. Segja má að leikplan gestanna hafi gengið fullkomlega allt þar til að 20.mínútur voru eftir af leiknum.

Þó svo að lítið hafi reynt á vörn BÍ/Bolungarvíkur í leiknum voru miðverðirnir Loic Ondo og Zoran Stamenic mjög öflugir og þá sérstaklega Zoran. Hafþór Atli Agnarsson var einstaklega fastur fyrir og sá um að bjarga andliti miðjunnar hjá heimamönnum sem var fjarverandi löngum stundum. Ekki er hægt að ljúka þessari umfjöllun án þess að minnast á framgöngu Matthíasar Króknes Jóhannssonar sem rétt eins og á móti HK hleypti nýju lífi í leikinn og reyndist algjör bjargvættur í kvöld.

- Gunnlaugur Jónasonn -

Frétt fr� Fótbolta.net. Sj alla fr�ttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=111297#ixzz1Rz17y723 Deila