Fréttir

Blómlegir tímar á knattspyrnusvæðinu á Torfnesi

Knattspyrna | 30.05.2023

Bærinn hefur óskað eftir tilboðum í að fjarlægja gervigras af æfingarvellinum á Torfnesi og jafna undirlag undir nýtt gervigras. Hefst því fyrsti verkhluti af þremur við endurbætur á knattspyrnusvæðinu á Torfnesi.

Þetta eru frábærar fréttir fyrir knattspyrnuiðkun á svæðinu. Það má segja að nú sé því að hefjast nýr kafli þar sem að knattspyrnusvæðið, sem síðast fékk upplyftingu fyrir 20 árum síðan, er að fá nauðsynlegar og góðar endurbætur. Til stendur að skipta út gervigrasinu á æfingasvæðinu og leggja gervigras á keppnisvöllinn. 

Mikið starf er unnið hjá knattspyrnudeildinni, líkt og öðrum íþróttadeildum á svæðinu. Það er því mikilvægt að hlúa vel að starfseminni og umhverfinu til að geta haldið áfram góðu og faglegu starfi. Það er ekki síst mikilvægt nú á þessum tímum að hlúa vel að íþróttaiðkun barna og ungmenna en eins og flestir vita hafa íþróttirnar mikið forvarnargildi. Íþróttirnar, í sameiningu, eru að keppast við síma, tölvur og einangrun. 

Knattspyrnudeildin fagnar þessum framkvæmdum og hlakkar til komandi tíma. 

Deila