Fréttir

Djúpmenn og Þróttarar skiptu stigunum á milli sín

Knattspyrna | 27.06.2011 Þróttur 2 - 2 BÍ/Bolungarvík
0-1 Hafþór Atli Agnarsson ('15)
1-1 Dusan Ivkovic ('20)
1-2 Atli Guðjónsson ('43)
2-2 Sveinbjörn Jónasson ('70)

Jafntefli varð niðurstaðan í viðureign Þróttar og BÍ/Bolungarvíkur í 1. deildinni í dag. Skástrikið tefldi aftur fram fimm manna vörn eins og gegn Breiðabliki í bikarsigrinum fræga en BÍ/Bolungarvík og Þróttur mætast einmitt í 8-liða úrslitum bikarsins

Heimamenn gerðu tilkall til vítaspyrnu snemma leiks þegar þeir vildu fá dæmda hendi á varnarmanninn Atla Guðjónsson en dómarinn Gunnar Sverrir Gunnarsson var ekki sammála þeim hrópum.

Fyrsta markið kom eins og þruma úr heiðskýru lofti. Hafþór Atli Agnarsson var ekkert að hika við hlutina og lét vaða á markið af um 30 metra færi. Boltinn söng í netinu og gestirnir komnir yfir.

Þessi forysta stóð ekki nema í rúmar fimm mínútur því varnarjaxlinn Dusan Ivkovic jafnaði fyrir Þrótt í kjölfarið á hornspyrnu. Jens Elvar Sævarsson fékk boltann og sendi laglega fyrir á hinn hávaxna Ivkovic sem skoraði með skalla.

Djúpmenn héldu áfram að liggja til baka og sýndu þolinmæði meðan Þróttarar leituðu að glufum, Á markamínútunni miklu endurheimti Skástrikið svo forystu sína. Eftir aukaspyrnu skallaði Zoran Stamenic að marki, boltinn barst svo á Atla Guðjónsson sem var í markteignum og sá til þess að hann færi inn.

Seinni hálfleikur var rosalega tíðindalítill. Þróttarar héldu áfram að leita að glufum og fundu eina slíka á 69. mínútu þegar gestirnir gerðu sig seka um slæm varnarmistök. Sigurgeir Gíslason tapaði boltanum og hinn sjóðheiti Sveinbjörn Jónasson hirti hann og skoraði svo með hnitmiðuðu skoti í vinstra hornið.

Svekkjandi fyrir gestina sem höfðu skömmu áður fengið mjög gott færi en Trausti Sigurbjörnsson varði þá vel frá Colin Marshall.

Seint í leiknum fékk sóknarmaðurinn Tomi Ameobi að líta gula spjaldið fyrir ansi litlar sakir. Er þetta hans fjórða gula spjald í sumar og verður hann því í leikbanni þegar þessi tvö lið mætast í bikarnum. Ameobi er algjör lykilmaður í liði Djúpmanna og þetta því mikið áfall fyrir þá.

2-2 jafntefli varð niðurstaðan í leik þar sem liðin voru dugleg að nýta færin sín.

Frétt á Fótbolta.net. Deila