Fréttir

Eyður í vopnabúrinu

Knattspyrna | 13.05.2011

„Hápunktar stutts fótboltaferils míns voru líklega þrír. Sá fyrsti var þegar ég og Einar vinur minn Jóhannes vorum í 5. flokki og sigruðum fyrir hönd BÍ spurningakeppnina á Essó-mótinu á Akureyri. Annar hápunkturinn var þegar ég í leik gegn Fjölni eða Leikni (man aldrei hvort er hvað) skoraði mark frá miðju. Almennt er það fíflaskapur að skjóta frá miðju, en ég var í flippstuði. Mig rámar í að markvörður hins liðsins hafi staðið utarlega og að ég hafi fengið ljúfan jarðarbolta að mér þar sem ég stóð framarlega í bakvarðarstöðu. Svo skaut ég bara yfir markmanninn og inn. Ég held þetta hafi verið fyrsti leikurinn sem ég nokkurntímann á ferlinum var í liði sem vann lið sem var ekki af Vestfjörðum.

 

Þriðji hápunkturinn var einmitt sigur BÍ á Vestfjarðamótinu þegar ég var á eldra ári í 5. flokki. Ég var fyrirliði a-liðsins, annálaður fyrir trausta stjórn á mínum mönnum, einstakt lag á að þjappa hópnum saman og búinn gríðarlega þroskuðum leikskilningi. Leikskilningur minn í knattspyrnu hefur raunar alltaf verið mitt helsta vopn, mitt björgunarvesti í erfiðum aðstæðum.

 

Mótið var haldið í Bolungarvík. Veðrið var prýðilegt, aðstæður til fyrirmyndar man ég og stemmningin almennt góð. En ég man lítið eftir leikjunum sjálfum, hvort við höfum marið andstæðingana okkar eða rústað þeim. En við stóðum uppi sem sigurvegarar og ég, fyrir hönd liðsins, hampaði bikarnum í dagslok. Bikarinn er enn í bikaraskápnum á efri hæð íþróttahússins, vilji einhver vitja þessara íþróttasöguminja.

 

Að ferlinum loknum

Þetta var heppilegt slútt á ferlinum. Ári seinna byrjaði ég í 4. flokki. Þar var tvennt sem fældi mig frá, annarsvegar stærð vallarins sem mér fannst gera leikinn leiðinlegan, og hinsvegar tæklingar. Mér leist ekkert á tæklingar, fannst þær heyra undir bolabrögð og vera örþrifaráð lélegra varnarmanna. Svo hef ég aldrei státað af merkilegri hreyfigreind, og ég sá því fyrir mér að almennt yrðu tæklingar mér fjötur um fót (!), bæði fyrir mig sem tæklara og tæklaðan.

Og tæklingar eru hraðar og geta meitt mann; það er ástæða fyrir því að ég valdi skíðagöngu framyfir svigskíðin.

 

Ég hætti í fótboltanum fljótlega, dútlaði eitthvað í línumennsku í handbolta, lék mér í körfubolta, renndi mér á skíðum, hjólaði og var almennt duglegur við að leika mér og hreyfa mig. Um fermingu hætti ég alfarið að fylgjast með íþróttum fyrir utan að horfa á íslenska handboltalandsliðið og styðja íslenska skíðagöngu. Ég gæti ekki unnið mér það til lífs að segja hverjir urðu enskir meistarar í fyrra. Með mislöngum hléum hef ég síðan ég var tvítugur spilað fótbolta með strákunum, í einhverjum íþróttahúsum á veturna og á gervigrasinu á Ísafirði á sumrin. Það hefur gengið ágætlega; tæklingar eru frekar fátíðar svo þessi eyða í vopnabúrinu mínu er ekki of alvarleg.

 

Eyður í vopnabúrinu

En eyðan sem er þó öllu alvarlegri dúkkar stundum upp—ég kann hvorki reglurnar um rangstöðu né hvernig maður spilar vörn eða sókn í slíkum leikjum. Hafandi hætt eftir 5. flokk, og ekki horft á fótbolta svo heitið geti frá fermingu, veit ég bara ekki hvernig þetta virkar. Leikskilningurinn minn er með orðum bundinn við sjömannabolta, en mjög þroskaður sem slíkur.

Síðasta sumar spilaði bumbuboltafélagið af gervigrasinu æfingaleik við 3. flokk skástriksins. Þar var rangstaða tekin með og ég þurfti að læra reglurnar í snarhasti. Er rangstaða eftir innköst? spurði ég. En eftir aukaspyrnu? Þetta gekk að lokum ágætlega, þannig lagað, þó við hefðum tapað leiknum.
Ég er kannski ekki sprettharður eða með mikla hreyfigreind. En ég hef eitt sem vinnur með mér—gríðarlega þroskaðan leikskilning."
Deila