Fréttir

Fíkill kemst í fíling

Knattspyrna | 02.05.2011

Líkt og glöggir lesendur síðunnar hafa séð, er ætlunin að vera með reglulega pistla á vefnum í sumar. Söngfuglinn Birgir Olgeirsson reið á vaðið með lofgjörð um Gunnar Má Elíasson, fyrirliða BÍ/Bolungarvíkur. Að þessu sinni er komið að fjölmiðlastjörnu okkar vestfirðinga, Guðmundi Gunnarssyni.

"Ég er fótboltafíkill. Ég viðurkenni það fúslega. Á hverjum degi fylgist ég með fleiri leikjum, vakta fleiri leikmenn og kanna stöðuna í fleiri deildum en nokkrum manni getur mögulega talist hollt.  Þannig er þetta bara. Fótboltinn er mitt nikotín. Ég get ekki hugsað mér að borða morgunmat fyrr en ég er búinn að fara á netið og tékka á nýjustu tíðindum. Ég er eins og reykingamaðurinn sem húkir í dyragættinni á náttsloppnum eldsnemma morguns. Ég bara verð að fá skammtinn minn.
Ég hef enga skýringu á þessu. Heimabærinn minn hefur nú ekki beinlínis orð á sér fyrir að vera mekka knattspyrnunnar. Sigrarnir hafa verið fáir og titlarnir enn færri. Ég hef samt aldrei getað haldið með öðru íslensku liði. Mínir menn eru fyrir vestan.


Ég held reyndar að þessi svaðalega fótboltafíkn hafi byrjað, eins og hjá svo mörgum, með saklausu fikti í æsku. Maður var að stelast í eina og eina íþróttasíðu þegar lítið bar á enda ungur og forvitinn. Hélt að maður gæti bara hætt um leið og fíknin færi að ná yfirhöndinni.


En svo missti maður auðvitað tökin á þessu og neyslan jókst jafnt og þétt. Íþróttasíðurnar, fótboltaspilin í tyggjópökkunum, bókaröðin Íslensk Knattspyrna, tímaritin Shoot og Match sem maður keypti í Bjarnabúð að ógleymdum Bjarna Fel á laugardögum. Maður gleypti þetta í sig og virtist aldrei fá nóg. Áður en ég vissi af var fótboltinn búinn að heltaka líf mitt. Ég rankaði gjarnan við mér í kjallaranum hjá Kristjáni Jónssyni vini mínum. Þá höfðum við félagarnar jafnvel legið í harðri fótboltaneyslu í marga sólarhringa.


Við vorum á kafi í þessu. Stundum hafði knattspyrnuheimurinn ekki einu sinni undan við að skipuleggja keppnir fyrir okkur. Við máttum til dæmis ekkert vera að því að bíða í heil fjögur ár eftir stórmótunum. Við vorum alltaf búnir að draga í riðlana, spila leikina og taka saman tölfræðina löngu áður en mótin hófust í raun og veru. Það vita það kannski fáir en Maradona sló allra fyrst í gegn á HM 1985. Það mót var spilað með tuskubolta í kjallaranum á Traðarstígnum í Bolungarvík. Maradona leiddi sína menn til sigurs og var alveg í skýjunum þegar hann tók við bikarnum, sem var gljáfægð súpuskál úr safni Margrétar móður Kristjáns. Þetta gerðist rúmu ári áður en Maradona gerði garðinn frægan á öðru stórmóti í Mexíkó. Heimsbyggðin stóð víst á öndinni en okkur Kristjáni þóttu þetta ekki merkileg tíðindi. Við vorum löngu búnir með þetta mót.


Það má segja að á þessum árum hafi neyslan náð ákveðnu hámarki. Kristján er reyndar enn í gríðarlegri neyslu og hefur gert fíknina að ævistarfi. Ég hef aftur á móti reynt að hafa smá hemil á þessu. Ég geri mér þó grein fyrir að ég er enn fótboltafíkill.


Og af hverju í ósköpunum er ég að segja ykkur þetta? Nú, til þess að þið áttið ykkur á því hvernig það er fyrir fótboltafíkil, sem er jafnframt gallharður Bolvíkingur, að fylgjast með uppgangi BÍ/Bolungarvíkur um þessar mundir. Til þess að þið skiljið hvað það þýðir fyrir mig að eiga loksins lið sem eitthvað kveður að. Það er gjörsamlega geðveik tilfinning!

Það styttist í fyrsta leik sumarsins og mig verkjar bæði í brisið og skeifugörnina af spenningi.  Ég hef ekki verið svona spenntur síðan ég skaut óvart niður loftljós á Traðarstígnum með plasttuðru."
 

Guðmundur Gunnarsson.

Deila