Fréttir

Flottur sigur gegn Þrótti

Knattspyrna | 04.04.2011 Þróttur  2-3  BÍ/Bolungarvík
0-1 Goran Vujic
0-2 Alexander Veigar Þórarinsson
0-3 Andri Rúnar Bjarnason
1-3 Egill Björnsson
2-3 Sveinbjörn Jónasson

BÍ/Bolungarvík tók á móti Þrótti Reykjavík á laugardaginn síðasta. Leikið var á gervigrasvellinum við Laugardal í fínu veðri og við góðar aðstæður. Menn ánægðir að leikirnir séu komnir út úr höllunum. Hjá okkur vantaði Zoran Stamenic og Birki ásamt því að Jónmundur, Sigþór og Colin eru allir að glíma við lítilsháttar meiðsli en von er á þeim aftur í hópinn fyrir leikinn gegn ÍR á fimmtudaginn

Byrjunarliðið var þannig skipað:
Þórður - Sigurgeir, Atli, Ondo, Aco - Haffi, Gunnar, Alexander, Óttar, Matti - Goran
Á varamannabekknum voru Andri, Sölvi og Nikulás

Umfjöllun um fyrri hálfleik verður stutt. Liðið var vægast sagt mjög lélegt, sköpuðum varla færi og náðum nokkrum sendingum á milli manna. Heppnir að fara með 0-0 í hálfleik en það var einungis útaf því að Þróttarar voru líka mjög lélegir en þó skömminni skárri en við. Þórður átti einnig stórleik í markinu.

Liðið mætti mun ákveðnara til leiks í seinni hálfleik. Leikurinn var mjög jafn allt þar til við skorum fyrsta markið í leiknum þegar um tuttugu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Þar var að verki Goran Vujic í sínum fyrsta leik á tæpu ári. Goran sendi boltann á Óttar sem gaf fyrir á Gunnar sem renndi honum aftur fyrir markið á Goran sem skoraði í autt markið. Eftir það fylgdu tvö mörk með skömmu millibili frá Alexander og Andra sem kom inn á stuttu áður. Staðan orðin 3-0 okkur í vil. Þegar um 15 mínútur voru eftir þá skoruðu Þróttarar tvö mörk með þriggja mínútna millibili og þeir komnir aftur inn í leikinn. Síðustu mínútur leiksins voru mjög spennandi þar sem Þróttarar reyndu að sækja og jafna leikinn en við héldum þetta auðveldlega út. Góður 3-2 sigur staðreynd á Þrótti sem munu spila með okkur í 1. deildinni í sumar.

Besti maður okkar í leiknum var Þórður í markinu sem varði oft mjög vel, þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Goran var einnig öflugur frammi og var í miklum slag við varnarmenn Þróttar allan leikinn, hann mun komast í form og verða bara betri. Matti er að koma vel inn í þetta hjá okkur núna, byrjaði leikinn og var ákveðinn á kantinum. Hann er búinn að vera eitthvað meiddur í vetur og svolítið týndur á köflum, eftir svo mínúturnar verða fleiri hjá honum þá mun sjálfstraustið aukast.

Mörkin úr leiknum
Deila