Fréttir

Frábær útisigur á Fjölni

Knattspyrna | 11.06.2013

Þegar Fjölnir og BÍ/Bolungarvík mættust í fyrstu deild karla í dag var einn leikmaður inni á vellinum sem átti nokkur hundruð leiki að baki í tveimur efstu deildunum á Englandi. Sá leikmaður átti eftir að gera gæfumuninn því Nigel Quashie skoraði tvö mörk í síðari hálfleik sem hjálpuðu BÍ/Bolungarvík að landa sínum fjórða sigri í fyrstu deildinni í sumar.

Fjölnismenn eru aftur á móti búnir að tapa þremur leikjum í röð og fá á sig níu mörk í síðustu tveimur heimaleikjum.

Byrjunin lofaði þó góðu fyrir Fjölni í dag því Illugi Þór Gunnarsson skoraði með skoti fyrir utan teig snemma leiks. Max Touloute jafnaði eftir gott einstaklingsframtak undir lok fyrri hálfleiks en fjörið var meira í síðari hálfleiknum.

Quashie skoraði fyrsta með skoti fyrir utan teig og hann bætti upp öðru marki sem hann átti einnig nánast upp á sitt einsdæmi. Quashie vann þá boltann á miðjunni og fékk hann síðan aftur frá Ben Everson og skoraði.

Everson hefur verið öflugur í byrjun móts og hann skoraði fjórða mark BÍ/Bolungarvíkur í viðbótartíma þegar hann refsaði Fjölnismönnum fyrir slakan varnarleik. Í millitíðinni hafði varamaðurinn Júlíus Orri Óskarsson náð að minnka muninn fyrir Fjölnismenn með þrumuskoti.

Þrátt fyrir það voru Fjölnismenn nánast aldrei líklegir til að ná einhverju úr leiknum eftir að BÍ/Bolungarvík tók forystuna og Vestfirðingar unnu verðskuldaðan sigur.

BÍ/Bolungarvík hefur byrjað tímabilið frábærlega og eins og staðan er í dag er ekkert því til fyrirstöðu að liðið blandi sér í toppbaráttuna. Fjölnismenn eru aftur á móti í verri málum og þurfa að rífa leik sinn upp á næstunni ef botnbarátta á ekki að verða þeirra hlutskipti í sumar

Frétt frá Fótbolta.net

Deila