Fréttir

Fram slapp með skrekkinn

Knattspyrna | 08.06.2016

Vestri mætti Fram í Borgunarbikar karla á Torfnesi í kvöld. Fram komst í 0-3 um miðjan seinni hálfleik en heimamenn áttu frábæra endurkomu undir lok leiksins og voru nálægt því að jafna.

Hetjuleg endurkomutilraun Vestra mislukkaðist þegar liðið fékk Fram í heimsókn í Borgunarbikarnum í kvöld.

Ósvald Jarl Traustason kom gestunum yfir snemma í leiknum og tvöfaldaði hann forystuna snemma í síðari hálfleik, skömmu áður en Hlynur Atli Magnússon bætti þriðja marki Framara við.

Leikurinn virtist fjara út við þriðja mark Framara en þá var Hjalta Hermanni Gíslasyni skipt inná í liði Vestra.

Hjalti minnkaði muninn á 83. mínútu og gerði svo annað mark tveimur mínútum síðar og úr varð leikur. Aðeins mínútu síðar slapp Hjalti í gegn og hefði getað fullkomnað þrennu á fjórum mínútum ef ekki fyrir Stefano Layeni, sem varði frá honum.

Heimamenn vildu svo fá vítaspyrnu undir lokin þegar Pétri Bjarnasyni var ýtt innan vítateigs. Helga Mikaeli Jónssyni, dómara leiksins, fannst atvikið ekki refsivert og niðurstaðan 3-2 sigur Fram á Ísafirði.

Frétt frá Fótbolta.net.

Deila