Fréttir

Fyrsti leikur í Lengjubikarnum

Knattspyrna | 21.02.2011 BÍ/Bolungarvík tók á móti Haukum síðastliðinn laugardag í Reykjaneshöllinni. Þetta var fyrsti leikur liðsins í Lengjubikarnum og fyrsta í fyrsta skiptið sem liðið leikur í A-deild Lengjubikarsins en sú deild samanstendur af 24 bestu liðum Íslands(Pepsi deild+1. deild). Haukarnir féllu úr Pepsi deildinni síðasta sumar þannig að liðin munu einnig mætast í sumar. Í liðið vantaði Goran og Óttar sem eru báðir meiddir. Goran er að jafna sig eftir slæm meiðsli í Lengjubikarnum í fyrra og síðan hafa smávægileg meiðsli verið að plaga Óttar undanfarið.

Byrjunarliðið var þannig skipað:
Þórður - Sigurgeir, Birkir, Atli, Sigþór - Haffi, Gunnar Már, Alexander - Sölvi, Ásgeir G. og Andri
Á varamannabekknum sátu Matti, Nikulás, Addi og Jónmundur

Leikurinn fór hægt af stað en það var ljóst frá fyrstu mínútu að okkar menn ætluðu ekki að gefa neitt eftir. Haukarnir fengu að halda boltanum á sínum eigin vallarhelmingi en þegar yfir miðjuna var komið mættu þeir þéttri vörn. Við unnum hvað eftir annað boltann á hættulegum stöðum og við tóku flottar skyndisóknir sem sköpuðu hvað eftir annað álitleg eða mjög góð marktækifæri. Eftir um 20. mínútna leik kemst Alexander inn í sendingu hjá varnarmanni Hauka, hann leikur á einn og skýtur síðan hnitmiðuðu skoti í nærhornið. Staðan 1-0 fyrir okkur en hún hefði hæglega getað verið 3-0 miðað við færin. Haukarnir héldu áfram að halda boltanum en illa gekk að skapa færi. Það var síðan stuttu eftir fyrsta markið að stungusending kemur inn fyrir vörn Hauka, markmaðurinn er fyrri til en hittir boltann ekki nægilega vel þannig að hann fer beint á Alexander Veigar sem er staddur tiltölulega langt úti á velli. Hann er fljótur að átta sig og lyftir boltanum yfir hálfan vallarhelming Hauka og beint í markið. Staðan þá orðin 2-0 fyrir okkur. Haukarnir voru hérna orðnir verulega pirraðir, gekk illa að skapa færi og við baráttuglaðir að valda þeim allskonar usla. Það var síðan algjörlega upp úr engu sem Haukar ná að minnka muninn. Við vinnum boltan enn eina ferðina á miðjunni, náum ekki að halda honum, fáum nokkur færi á að koma í veg fyrir sókn Hauka sem endar með að há sending dettur óvart fyrir fætur framherja þeirra sem kemur boltanum framhjá Þórði í markinu. Rangstaða vildi okkar fólk meina sem stóð í línu við atvikið í áhorfendastæðunum. Staðan var því 2-1 í hálfleik.

Í seinni hálfleik kemur Ásgeir útaf og Jónmundur kemur inn á. Andri fór þá á kantinn fyrir Ásgeir og Jónmundur tók stöðu Andra frammi. Við tók svipaður hálfleikur þar sem Haukarnir voru mun meira með boltann, við vörðumst vel en náðum ekki að skapa jafn mikið af færum og í fyrri. Við fengum þó bestu færi hálfleiksins og eitt af þeim frá Alexander hafnaði í slánni á marki Hauka eftir að hann, Andri og Jónmundur léku sér að vörninni. Strax eftir sláarskotið kom smá einbeitingarleysi í varnarleikinn, við stöndum framarlega eftir okkar sókn og yfir vörnina kemur stungusending þar sem Atli togar niður sóknarmann Hauka rétt fyrir innan vítateig. Dómarinn dæmdi ekki neitt en línuvörðurinn sem stóð mun lengra frá atvikinu flaggaði brot og þar af leiðandi víti. Haukar skora úr vítinu og staðan því óvænt orðin jöfn, 2-2. Hér var um 15 mínútur eftir af leiknum og nánast ótrúlegt að leikurinn skuli vera jafn. Haukarnir þjörmuðu á okkur í lokin á meðan við gáfum aðeins eftir. Áfram létu færin á sér standa hjá Haukunum en það var síðan í uppbótartíma að þeir fá horn sem við sköllum auðveldlega frá marki. Boltinn er síðan sendur aftur inn í teiginn þar sem Þórður fer út í sendinguna en nær ekki til boltans og framherji Hauka skallar í autt markið. Haukar komnir óverðskuldað yfir, 3-2. Leiknum var þó ekki lokið því við náðum einni sókn í lokin þar sem Andri fer illa með varnarmann Hauka sem fellir hann augljóslega í teignum en dómarinn dæmdi ekki neitt og allt brjálað í höllinni. Andri fær í kjölfarið gult spjald fyrir láta dómaran heyra það. Í kjölfarið flautar dómarinn leikinn af og 3-2 tap staðreynd.

Leikur okkar var fínn í dag þó að sjálfsögðu væri skemmtilegra að við héldum boltanum betur en þetta leikskipulag var klárlega að virka og var það ekkert nema klaufaskapur af okkar hálfu sem kom í veg fyrir sigur. Haffi spilaði sem djúpur miðjumaður og átti góðan leik, vann mikið af boltum á miðjunni og gaf allt í leikinn. Alexander og Gunnar Már voru síðan flottir fyrir framan Haffa. Atli og Birkir voru traustir í vörninni og Þórður öruggur í markinu. Andri, Jónmundur og Sölvi voru síðan hættulegir fram á við. Margt jákvætt má taka úr leiknum og mun liðið vissulega læra af þessu tapi. Nú heldur áfram vinna að byggja ofan á þetta.

Hægt er að sjá úrslit, stöðu og leikskýrslur hér til hliðar Deila