Fréttir

Góður árangur á smábæjaleikum

Knattspyrna | 08.07.2010 Fjögur lið frá BÍ88 lögðu land undir fót og tóku þátt í Smábæjaleikum á Blönduósi á dögunum. 6. flokkur drengja var með tvö lið og 7. flokkur stráka og stelpna var sömuleiðis með tvö lið. Keppt var á laugardegi og sunnudegi og fengu allir nægan fótbolta þessa helgina, svo mikið er víst. Liðin spiluðu 6-7 leiki hvert og voru því margir þreyttir að kvöldi.
Liði 1 í 6. flokki gekk best, þeir spiluðu Spánarbolta af krafti og enduðu í úrslitaleiknum. Hann endaði 2-2 og í stað þess að spila til þrautar var hlutkesti varpað. Skemmst er frá því að segja að okkar menn "töpuðu" leiknum í því hlutkesti.
Liði 2 gekk ekki alveg eins vel en þeir unnu helming leikja sinna og töpuðu hinum helmingnum. Var á brattann að sækja fyrir þau og að lokum enduðu þau um miðjan hóp eða í 9. sæti. Þau stóðu sig með prýði og létu mótlætið ekki slá sig út af laginu enda töffarar af bestu gerð.
Lið 1 í 7. flokki hóf leik á tapi en þau tóku sig svo til og unnu rest. Enduðu þau í leik um 3. sæti og unnu hann af harðfylgi, frábærlega gert! Þar voru stelpur og strákar saman á víglínunni og stóðu sig með prýði enda einbeitingin gífurleg. Einhver kvartaði m.a.s. undan því að foreldrar hans væru bara að trufla hann með öllum þessum hvatningarhrópum.
Lið 2 stóð sig líka frábærlega en töpuðu tveimur leikjum naumlega og enduðu í 7. sæti. Það þarf því ekki mikið til að detta hratt niður töfluna í svo fjölmennu móti. Krakkarnir voru hins vegar ánægð með árangurinn - og allan fótboltann! Það var mjög gaman að sjá hve liðið var oft að spila vel sín á milli og stundum gersamlega yfirspiluðu þau andstæðinga sína. Það er ekki algengt hjá svo ungum iðkendum.
Þess ber að geta að félagið raðar ekki niður í lið eftir styrkleika heldur er reynt að hafa liðin sem jöfnust. Við erum heldur ekki að leika til sigurs, heldur förum við fyrst og fremst til að vera með. Það var nokkuð bersýnilegt að hefðum við stillt upp okkar sterkustu liðum, hefðum við unnið nokkuð auðveldlega en veikari liðin okkar hefðu getað tapað illilega á sama tíma. Slíkt viljum við ekki og höldum því þeirri hefð í heiðri að stilla upp jöfnum liðum. Það hefur gefist ágætlega og allir fá að skemmta sér í fótbolta á jafnréttisgrundvelli.
 Við óskum krökkunum til hamingju með ferðina og skemmtunina, við foreldrarnir á hliðarlínunni skemmtum okkur ekkert minna en þau. Deila