Fréttir

Góður heimasigur á Leikni R.

Knattspyrna | 17.08.2011 BÍ/Bolungarvík 1 - 0 Leiknir R.
1-0 Tomi Ameobi ('41, víti)

Leikmenn BÍ/Bolungarvíkur mættu fullir sjálfstrausts til leiks í kvöld eftir að hafa eyðilagt Pepsideildarfagnaðarlæti Skagamanna á laugardaginn síðastliðinn. Gestirnir vermdu hins vegar næst neðsta sætið fyrir leik kvöldsins og ætluðu því ekki að selja sig ódýrt í þessum leik. Guðjón Þórðarson þjálfari heimamanna gerði eina breytingu á sínu liði frá ÍA leiknum en Gunnar Már Elíasson fyrirliði kom inn í liðið eftir að hafa verið í leikbanni í stað Nicky Deverdics sem ekki gat verið með í kvöld af persónulegum ástæðum.

Zoran Mijlkovic gerði sömuleiðis eina breytingu á sínu liði frá síðasta leik en Kjartan Andri Baldvinsson kom inn í liðið í stað Kristjáns Páls Jónssonar. Áður en lengra er haldið verður fréttaritari að leggja fram formlega kvörtun til búningastjóra Leiknismanna þar sem hvítir varabúningar þeirra með gylltum númerum gera sjóndöprum manni afar erfitt fyrir að aðgreina leikmenn og biðst ég afsökunar ef ég fer rangt með nöfn. Þá er það frá og getum við þá snúið okkur að leiknum.

Bæði lið spiluðu mjög varfærnislega til að byrja með og gáfu fá færi á sér. Eftir 20 mínútna leik lagði Tomi Ameobi boltann á Sölva Gylfason en skot hans fór beint á Eyjólf Tómasson í marki Leiknismanna. Á 36.mínútu komst Pape Mamadou Faye í ákjósanlegt færi eftir hornspyrnu en skalli hans fór framhjá.

Á 40.mínútu dróg til tíðinda. Andri Rúnar Bjarnason slapp þá innfyrir vörn gestanna og var kominn inn í vítateig þegar hann reyndi að leika á Brynjar Óla Guðmundsson sem brá fyrir honum fæti og ekkert annað í stöðunni fyrir Halldór Breiðfjörð dómara en að dæma vítaspyrnu. Á punktinn fór Tomi Ameobi sem skoraði úr sínu öðru víti í jafnmörgum leikjum þó svo Eyjólfur hafi veðjað á rétt horn og verið í boltanum. Stuttu seinna var bragðdaufur fyrri hálfleikur flautaður af.

Seinni hálfleikurinn fór ögn fjörlegar af stað og strax á 48.mínútu komst Aron Daníelsson upp að endamörkum og renndi boltanum fyrir opið mark heimamanna en ekkert vantaði nema gráðugan framherja til að reka tánna í boltann. Strax í næstu sókn slapp Andri Rúnar í gegnum vörn Leiknismanna en Eyjólfur varði skot hans úr þröngu færi í horn.

Eftir fjöruga byrjun róaðist leikurinn aðeins. Þórir Guðjónsson átti þó gott skot að marki heimamanna sem Hafþór Atli Agnarsson kastaði sér fyrir, Gunnar Már komst í gott færi eftir sendingu frá Sölva Gylfasyni en laflaus skalli hans endaði beint í fanginu á Eyjólfi markverði gestanna.

Á lokamínútum leiksins færðist heldur betur fjör í leikinn. Leiknismenn pressuðu þá stíft og ætluðu sér greinilega ekki að deyja baráttulaust. Á 85.mínútu skeiðaði Aron Daníelsson upp vinstri kantinn og renndi honum fyrir en skot Ólafs Hrannars Kristjánssonar fór yfir. Mínútu síðar komst Pape Mamadou Faye í frábært færi en Þórður Ingason varði vel í horn. Eftir hornið náði Pape svo góðum skalla á markið en aftur varði Þórður, nú í slánna og út. Þegar þrjár mínútur voru svo komnar framyfir venjulegan leiktíma var Pape enn og aftur á ferðinni. Hann hristi þá Atla Guðjónsson af sér, sem er ekkert lítið verk, en skot hans hafnaði í stönginni og framhjá. Eftir útsparkið flautaði Halldór Breiðfjörð svo til leiksloka.

Þegar Bí/Bolungarvík mætti í Breiðholtið fyrr í sumar enduðu leikar með 0-1 sigri vestanmanna eftir mark Tomi Ameobi. Það var því nokkurn veginn sama leikskýrsla sem barst til KSÍ eftir leikinn í kvöld. Ekki er hægt að segja að sigur BÍ/Bolungarvíkur hafi verið óverðskuldaður þar sem að þeir skoruðu jú fleiri mörk en Leiknir var síst lakara liðið í leiknum. Dagsskipun Guðjóns Þórðarsonar virtist augljóslega vera númer eitt, tvö og þrjú að halda hreinu. Strax eftir markið færðust heimamenn aftar á völlin og lágu þéttir til baka.

Enginn leikmaður skaraði fram úr í leiknum í kvöld hjá báðum liðum. Varnarlína heimamanna þeir Atli Guðjónsson, Sigurgeir Sveinn Gíslason og Loic Mbang Ondo voru mjög þéttir ásamt Hafþóri Atla Agnarssyni í hlutverki stopparans aftast á miðjunni. Einnig verður að hrósa Þórði í markinu fyrir að verja nokkrum sinnum frábærlega undir lok leiksins. Hjá gestunum var Aron Daníelsson manna sprækastur og átti ófáa sprettina upp vinstri kantinn. Einnig var Pape Mamadou Faye öflugur en hann hefði þó mátt fara í gang fyrr í leiknum en síðustu 10 mínúturnar.

Úrslit kvöldsins voru afar hagstæð fyrir BÍ/Bolungarvík sem sitja nú í þriðja sæti fjórum stigum á eftir Selfossi sem tapaði á heimavelli gegn Þrótti í kvöld. Leiknismenn sitja enn sem fastast í 11.sæti og eru nú þremur stigum á eftir nágrönnum sínum í ÍR sem náðu í stig á heimavelli gegn ÍA.

Gunnlaugur Jónason - fotbolti.net Deila