Fréttir

Gunnar Már framlengir til 2014

Knattspyrna | 22.11.2012 Bolvíkingurinn, Gunnar Már Elíasson, hefur framlengt samning sinn við félagið. Núverandi samningur gildir næstu tvö árin, eða fram á haust 2014.


Gunnar Már er 26 ára. Hann er fjölhæfur miðjumaður sem getur leyst margar stöður á vellinum. Hann var meiddur í upphafi sumars en kom sterkur inn í seinni hlutann og átti stóran þátt í því að liðið hélt sæti sínu í deildinni.

Gunnar, jafnframt kallaður Hr. Bolungarvík, hóf árið 2002 að leika með meistaraflokki UMFB, þá aðeins 15 ára gamall. Hann hefur allan sinn feril leikið undir merkjum UMFB og BÍ/Bolungarvík. Hann á samanlagt 175 leiki í meistaraflokki og skorað í þeim 33 mörk.

Stjórn félagsins er mjög ánægð með að Gunnar Már skuli leika með félaginu áfram. Hann hefur alla tíð lagt allt sitt í að koma UMFB og BÍ á þann stað sem félögin eru í dag og er fyrirmynd annarra leikmanna.

Deila