Fréttir

Hamar - BÍ/Bolungarvík (Umfjöllun)

Knattspyrna | 13.06.2010

Hamar - BÍ/Bolungarvík
Lau. 12. júní kl.13:00
Grýluvöllur, Hveragerði
Íslandsmót 2. Deild

BÍ/Bolungarvík fór suður til Hveragerðis í fimmtu umferð 2. Deildar síðastliðinn laugardag. Veðuraðstæður voru slæmar, mjög mikill vindur og rigning. Völlurinn í Hveragerði var loðinn eins og oft áður. BÍ/Bolungarvík hafði sigrað tvo seinustu leiki, Völsung í bikar og KS/Leiftur í deild. Hamars liðið tapaði hins vegar fyrir Hvöt í seinustu umferð en vann ÍH þar áður. Bjarni Jóhannsson þjálfari Sjörnunnar var mættur á leikinn til að skoða næstu andstæðinga í 16-liða úrslitum Visa bikarsins.

Byrjunarliðið var þannig (Sjá mynd nr. 1)
Varamannabekkurinn var mjög sterkur með þá Guðna Pál, Sigþór, Gunnar Má, Adda og Matta. Ásgeir Guðmunds var ekki með og Alfreð þjálfari mun vera meiddur í einhvern tíma.

Leikurinn var mjög jafn til að byrja með en þegar líða tók á leikinn þá vorum við með boltann nær allan tímann. Hamarsliðið beið eftir okkur á sínum vallarhelming og leyfði okkur að spila boltanum í vörninni. Uppspilið hjá okkur var mjög fínt en þeir náðu að stöðva allt á þeirra þriðjung vallarins. Andri náði að komast í gegn um miðjan hálfleikinn en markmaðurinn náði að pota boltanum til hliðar þegar Andri ætlaði framhjá honum. Andri elti boltann uppi og gaf út á Pétur Run sem skaut beint á markið. Það var síðan í lok fyrri hálfleiks að Emil tekur hornspyrnu hægra megin sem fer framhjá öllum á nærstöng og beint á óvaldaðan Pétur Run á fjærstöng sem tók boltann á lofti í boga framhjá markmanninum.(Mynd nr. 2, 3 og 4). 0-1 fyrir okkur í hálfleik.

Þetta gerði það að verkum að Hamarsliðið þurfti að koma framar á völlinn og reyna að sækja. Þá fór að slitna milli varnar og miðju hjá þeim sem gerði okkur kleift að splúndra vörn þeirra hvað eftir annað í seinni hálfleik. Það voru samt ekki liðnar nema sex mínútur af seinni hálfleik þegar leikmaður þeirra fær beint rautt spjald fyrir að traðka á Emil Páls eftir návígi þeirra. Strax þar á eftir kemst Andri í gegn, fer framhjá markmanninum og leggur boltann í netið, 0-2 á 52. mínútu. Gunnar Már kemur síðan inn á fyrir Gulla í bakvörð á 61. mínútu og það tók hann ekki nema þrjár mínútur að fara framhjá þremur varnarmönnum Hamars og leggja boltann framhjá markverðinum, 0-3 (Mynd nr. 5). Óttar Kristinn Bjarnason skoraði síðan fjórða markið eftir að hafa fengið sendingu út í teiginn og kláraði mjög vel með vinstri í fjærhornið.

Skömmu síðar fær annar leikmaður Hamars beint rautt spjald eftir fáranlega tæklingu á Haffa. Róbert Örn ákvað að næla sér í gult með því að rjúka út úr markinu og hlaupa út á miðjan völlinn til að stjaka við leikmanni Hamars. Áhangendur liðanna skiptust á nokkrum vel völdum orðum í stúkunni um atvikið. Haffi fer meiddur útaf og Sigþór kemur inn í staðinn. Pétur Geir innsiglaði síðan sigurinn í lokin eftir að hann tók frákast í teignum og kláraði þröngt færi mjög vel. Hamar fengu sitt eina færi í lokin þegar leikmaður þeirra komst í gegn en Robbi varði vel. 0-5 sigur staðreynd.

Liðið spilaði mjög vel í þessum leik og mistökum fer ört fækkandi með hverjum leiknum sem liðið leikur saman. Dalibor og Sigurgeir voru mjög traustir saman í vörninni. Dalibor er góður spilari sem velur oftar en ekki rétta menn til að senda á úr vörninni og hjálpar mikið til við að koma boltanum framar á völlinn. Með Pétur Run, Emil Páls og Milan á miðjunni höfum við þvílík gæði í þeim stöðum. Milan er að komast betur og betur inn í þetta því það sást í fyrstu leikjunum að hann þyrfti tíma til að aðlagast. Hann gerir mjög fá mistök á miðjunni og gerir einföldu hlutina rétt. Bakverðirnir lentu ekki í neinum rosalegum vandræðum og Óttar, Andri og Pétur Geir stóðu fyrir sínu í framlínunni. Róbert hafði það síðan afar náðugt í markinu.

Myndir frá leiknum má finna á myndasíðunni.

Deila