Fréttir

Hólmfríður Magnúsdóttir heimsótti Ísafjörð

Knattspyrna | 02.02.2010 Við fengum góða heimsókn um helgina en þá komu þau Hólmfríður Magnúsdóttir, vinstri kantari landsliðsins og Kristianstad  í Svíþjóð og Guðlaugur Þorvaldsson frá KSÍ á æfingar nokkurra yngri flokka. Hólmfríður hafði frá mörgu að segja, hún er nú að flytja til Bandaríkjanna þar sem hún er að fara að spila með Philadelphia Independance. Hún veit sem er að liðið er mjög sterkt og er því að æfa meira núna en nokkru sinni og tók sér ekki einu sinni frí eftir að tímabilinu í Svíþjóð lauk þar sem hún vildi byggja ofan á formið sem hún var í þá. þess vegna æfir hún nú tvisvar á dag og passar sig á því að hvíla sig vel (fer alltaf að sofa um kl. tíu á kvöldin), borða hollan mat (því hún veit að ef hún borðar eitthvað ruslfæði mun hún verða bensínlaus á æfingum og þá bætir hún sig ekki neitt) og æfa markvisst og  vel. Hún er t.d. búin að leggja mikla áherslu á tækni undanfarið og til að verða betri í henni fer hún á völlinn kl. 5:45 á morgnana og æfir skot, knattrak eða sendingar í ca. klukkutíma á hverjum degi. Þess utan fer hún á þrekæfingar og styrkir líkamann til að berjast fyrir sæti sínu í Philadelphia-liðinu enda segir hún að ekkert sé öruggt í liðsvalinu, hún hafi aldrei verið í jafnsterku liði. Þar er að finna landsliðskonur frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Svíþjóð auk fimm U-23 ára landsliðsstelpna frá Bandaríkjunum. Þetta verður því erfitt fyrir Hólmfríði en hún fagnar ögruninni og ætlar að gera eins vel og hún getur og helst aðeins meira en það.
Vonandi höfðu allir gaman af að hitta þessa sterku knattspyrnukonu, við getum allavega lært mikið af henni. Hún bað fyrir bestu kveðjur til allra flottu krakkanna okkar og þakkar ykkur fyrir móttökurnar og spurningarnar sem þið lögðuð fyrir hana og vonar að þið hafið getað lært eitthvað örlítið af henni.

Myndir frá heimsókninni verða settar inn í myndahlutann hér til hliðar. Deila