Fréttir

Kári Ársælsson í BÍ/Bolungarvík

Knattspyrna | 15.01.2014

BÍ/Bolungarvík og Kári Ársælsson hafa komist að samkomulagi að sá síðarnefndi leiki með liðinu á komandi keppnistímabili. Kári skrifar undir eins árs samning við félagið og mun leika sinn fyrsta leik núna á laugardaginn gegn Selfoss í fotbolti.net mótinu. BÍ/Bolungarvík hefur verið á höttunum eftir varnarmanni eftir að Dennis Nielsen yfirgaf félagið og samdi við Egersund IK í Noregi.

Kári er fæddur árið 1985 og er varnarmaður. Hann er uppalinn hjá Breiðabliki en hefur einnig leikið með Stjörnunni og ÍA. Hann á að baki 164 leiki og 9 mörk á sínum ferli í deild og bikar. Hann kemur til liðsins frá ÍA.

Kári var fyrirliði Breiðabliks þegar liðið varð Íslandsmeistari 2010 og þegar liðið varð bikarmeistari árið á undan. Síðustu tvö ár hefur hann leikið með ÍA í Pepsi-deildinni.

Stjórn BÍ/Bolungarvíkur býður Kára velkominn til félagsins og eru miklar vonir bundnar við frammistöðu hans.

Deila