Fréttir

Matthías og Hildur valin best á lokahófi félagsins

Knattspyrna | 22.09.2014

Lokahóf meistaraflokka karla og kvenna hjá BÍ/Bolungarvík fór fram um síðastliðna helgi. Karlaliðið lék lokaleik sinn í 1. deild karla á laugardaginn gegn HK. Þeir enduðu tímabilið í 10.sæti eftir ágæta spilamennsku á seinni hluta tímabilsins. Kvennalið félagsins lauk keppni í 1.deild kvenna fyrir nokkru síðan. Þær höfnuðu í 8.sæti í A-riðli, einu stigi á undan Keflavík sem vermdi botnsætið.

Á hófinu sjálfu voru tímabilin gerð upp með skemmtiatriðum og verðlaunaafhendingu. Hefð er fyrir því að leikmenn meistaraflokks velji sinn besta leikmann. Það voru Matthías Króknes Jóhannsson og Hildur Hálfdánardóttir sem voru valin best af liðsfélögum sínum.

Matthías var sá leikmaður sem steig hvað mest upp á seinni hluta tímabilsins er BÍ/Bolungarvík tryggði sæti sitt nokkuð örugglega þegar þrjár umferðir voru eftir. Barátta, kraftur og jákvæðni var það sem einkenndi leik hans þegar liðið þurfti hvað mest á að halda. Matthías á að baki 66 leiki í deild og bikar með félaginu ásamt fjórum U17 landsleikjum. Hildur fór fyrir mjög ungu liði meistaraflokks kvenna á leiktímabili sem gekk upp og ofan eins og hjá körlunum. Þrátt fyrir ungan aldur þá er Hildur nú þegar komin með hátt í 50 leiki fyrir félagið og lauk hún sínu þriðja tímabili með meistaraflokki. Reynsla hennar nýttist yngri liðsfélögum vel í sumar.

Þá voru Elmar Atli Garðarson og Helga Þórdís Björnsdóttir valin efnilegust, Andri Rúnar Bjarnason og Erla Rut Sigurðardóttir voru markhæst og þá var Karitas Sigurlaug Ingimarsdóttir útnefnd mikilvægasti leikmaður meistaraflokks kvenna. 2.flokkur karla útnefndu sinn besta og efnilegasta leikmann. Daníel Agnar Ásgeirsson var sá besti og Friðrik Þórir Hjaltason sá efnilegasti.

Félagið vill þakka öllum styrktaraðilum og stuðningsmönnum fyrir stuðninginn á nýliðnu tímabili. Án ykkar væri þetta ekki hægt. Áfram BLÁIR!

Deila