Fréttir

Mót um helgina - hefðbundið og drullugt!

Knattspyrna | 26.08.2009 BÍ88 heldur mót um helgina, svona til að slútta viðburðaríku tímabili hjá öllum flokkum. Nú verður bryddað upp á þeirri nýjung að á laugardeginum verður leikinn hefðbundinn fótbolti á gervigrasinu við Torfnes en á sunnudeginum færum við okkur inn í Tungudal og spilum eins og við getum í drullunni - eins og fullorðna fólkið. Fyrirvarinn er stuttur svo nú verður að hafa hraðar hendur.
Unnið er að leikjaplani fyrir bæði mót og verða þau sett hér inn um leið og þau verða tilbúin. Þess ber þó að geta að drulluboltinn er ekki ætlaður 7. eða 8. flokki þar sem þau standa varla upp úr leðjunni og því væri færið dálítið erfitt fyrir þau.
Veðurspáin er ekki góð eins og staðan er í dag (rok og rigning) svo að huga verður að búnaði krakkanna. Reynt verður að búa til skjól eftir þörfum á staðnum til að halda hita á liðunum en fólk verður að gera ráð fyrir einhverjum búnaði til að koma krökkunum heim eftir leiki og svo því hvernig þau eru klædd meðan á húllumhæinu stendur. Mikilvægast er þó að notast ekki við dýran eða vandaðan skóbúnað í drullunni enda getur hann týnst eða skemmst. Lengd leikjanna verður haldið í lágmarki svo að enginn ofkælist.
Mestu skiptir þó að hafa gaman af og gleyma veðrinu, ef það er hægt. Við sjáumst því öll um helgina, hress og kát og öll á tánum. Deila