Fréttir

Okkar menn kallaðir á U-landsliðsæfingar

Knattspyrna | 03.12.2008 Eins og lýðum er ljóst hefur Emil Pálsson, leikmaður BÍ88, verið að æfa með 30 manna úrtaki með U-17 ára landsliði Íslands undanfarið. Hann var kallaður til æfinga um síðustu helgi og hefur nú verið hóað í hann á ný. Hann mun því æfa með liðinu nú um helgina 6. og 7. desember. Það er því ljóst að Emil kemur sterklega til greina í leikhóp liðsins.

En hann er ekki að fara einn í þetta skiptið því nú var Matthías Króknes Jóhannsson, leikmaður 3. flokks BÍ88, kallaður til æfinga með 60 manna úrtakshópi fyrir U-16 landsliðs Íslands. Það ætti ekki að koma neinum á óvart, Matthías er sterkur leikmaður og var gríðarlega gaman að horfa á spretti hans á vellinum síðasta sumar, þá sem leikmanns 4. flokks BÍ88. Hann sat síðan á bekknum hjá 2. flokki og kom við sögu í einhverjum leikjum. Þá kynntist hann aðeins bekkjarsetunni hjá meistaraflokki síðasta sumar en kom ekki við sögu í leikjum þeirra.

Við óskum Emil og Matthíasi til hamingju með árangurinn enda eru þeir valdir úr hópi nokkur hundruð stráka á landsvísu. Deila