Fréttir

Pistill frá stjórn BÍ/Bolungarvíkur

Knattspyrna | 13.05.2011 Það er alltaf jafn gaman þegar nýtt knattspyrnutímabil hefst. Í fyrsta sinn í rúm 20 ár er  1.deildar leikur á Torfnesvelli. Á síðustu þremur árum hefur BÍ/Bolungarvík farið upp um tvær deildir og ljóst að gríðarlega spennandi verður að fylgjast með liðinu á komandi keppnistímabili. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að fyrir einungis rúmum sjö mánuðum sátu stjórnarmenn liðsins á fundi og veltu því fyrir sér hvort þeir ættu að þora að hringja í Gauja Þórðar! Að lokum var þó ákveðið að láta slag standa og hringja í kappann...það yrði þó aldrei verra en hann færi að hlæja og skellti síðan á okkur.

Framhaldið þekkja flestir enda hafa fjölmiðlar fylgst vel með liðinu eftir ráðninguna á þekktasta þjálfara Íslands fyrr og síðar. Það sem hefur gerst síðustu sjö mánuði hefur verið ævintýri líkast.


Stefnan fyrir komandi leiktímabil var sett sl. haust. Það var grundvallaratriði í hugum stjórnarmanna að byggja liðið upp á þeim leikmönnum sem komu liðinu upp í fyrstu deild síðasta keppnistímabil. Þó var ljóst að það þyrfti að styrkja leikmannahópinn til þess að ná að festa rætur í deildinni. Því miður kvarnaðist mjög mikið úr þeim hóp sem við höfðum af ýmsum ástæðum. Alls hafa ellefu leikmenn yfirgefið liðið frá síðasta tímabili. Það var því ljóst að liðstyrkurinn þyrfti að vera meiri en upphaflega var áætlað. Í ljósi þess var rætt við fjölmarga íslenska leikmenn.


Til að gera langa sögu stutta var eins og íslenskir leikmenn hafi ekki áttað sig á því að Vestfirðir eru á topp tíu hjá Lonly Planet! Margir voru spenntir í fyrstu en sögðu svo nei. Aðrir vildu koma en þá sagði konan nei! Sú tillaga kom upp á stjórnarfundi að best væri að hringja beint í konuna...það sparaði tíma!


En það sögðu ekki allir nei. Þórður Ingason markmaður kom frá Fjölni, Alexander Veigar Pétursson frá Fram, Atli Guðjónsson frá ÍR og Sölvi Gylfason frá Skallagrími. Auk þess verður Jónmundur Grétarsson með okkur en eins og kunnugt er lék hann tíu leiki með liðinu á síðasta tímabili. Staðan í byrjun árs var því þessi: Ef við ætlum að hafa í lið þá þurfum við að fá útlendinga. Þessi staða er langt frá því að vera óþekkt, nánast öll lið á landsbyggðinni í efstu tveimur deildunum glíma við sambærileg vandamál. Það má alltaf deila um það hvað á að ganga langt í þessum efnum. Fjöldi útlendinga komu til liðsins á reynslu. Sumir voru hrikalega góðir, sumir miðlungs...og svo þessir tveir sem skulum ekkert ræða um. Við vildum fá þessa hrikalegu góðu...ódýrt!


Sumarið mun leiða í ljós hvernig til tókst. Sjö útlendingar hafa gengið til liðs við BÍ/Bolungarvík auk þess sem Goran Vujic verður áfram með liðinu. Fyrstan skal nefna hinn funheita Skota Colin Marshall (nr. 17). Hafið þið einhvern tímann hitt mann sem brjálast yfir að tapa reitabolta? Eða mann sem öskrar látlaust alla leiki (ath. orðbragð hans á vellinum er ekki fyrir viðkvæma!) og skammar jafnvel sjálfan sig í tíma og ótíma? Ef ekki, fylgist þá með honum. Næstur í röðinni var Loic Ondo (nr. 5) sem við fengum að láni frá Grindavík. Pollrólegur Frakki í vörninni og lætur ekkert koma sér úr jafnvægi. Massasáttur ef hann kemst í tölvuleiki á milli æfinga og leikja. Síðan komu þeir einn af öðrum. Zoran Stamenic kemur inn í miðju varnarinnar. Spilaði tvö tímabil hjá Grindavík í úrvalsdeildinni og stoppaði allar sóknir andstæðingana...nánast.  Nicky Deverdics (nr.  20) kemur upphaflega frá Newcastle og spilar á miðjunni. Gríðarlega lunkinn leikmaður sem heldur bolta einstaklega vel. Munaði engu að ónefndur stjórnarmaður hefði klúðrað dílnum með því að panta flugfar fyrir kappann undir nafninu Nicky Neverdicks...en það tókst að róa mannskapinn og hann er mættur! Hinn síkáti Michael Abnett (nr. 3) kemur til okkar frá Crystal Palace. Svakalega lipur bakvörður með extra skammt af hláturtaugum. Meiddist því miður í bikarnum á móti KFG og verður tæplega með á móti ÍR. Kevin Brown (nr. 21)  kemur frá Raith Rovers í Skotlandi. Hann er að fara í fyrsta sinn að heiman...spurði reyndar hvort það væri ekki hægt að keyra til Íslands...skulum ekkert stríða honum á því. Að lokum kom til okkar leikmaður að nafni Oluwatomiwo Ameobi (nr. 2). Ekki örvænta því hann gengur undir nafninu Tomi Ameobi...annars væri þetta auðvitað ekki hægt. Mjög sterkur framherji sem spilað hefur með Leeds, Newcastle og Portsmouth.  Eigum við að segja að eftir tímabilið viti enginn hver bróðir hans er?!


Leikmannahópurinn er sterkur. Það verður hörkusamkeppni um allar stöður í liðinu. Það eru góðar fréttir. En BÍ/Bolungarvík samanstendur ekki bara af þeim sem eru inni á vellinum. Fjöldinn allur af fólki og fyrirtækjum hafa hjálpað til við að gera klúbbinn að því sem hann er. Stjórn BÍ/Bolungarvíkur er óendanlega þakklát öllum þessum aðilum. Margar hendur vinna nefnilega létt verk. En það er langur vegur til loka tímabils og fjöldamörg verkefni bíða þess að verða leyst. Ef það er einhver þarna úti sem langar að starfa fyrir klúbbinn þá má hinn sami endilega hafa samband við stjórnina. Hvort sem það er að starfa við heimaleiki, hella upp á kaffi...eða bara vera til staðar...þá er það meira en vel þegið. Að hafa hlutverk gefur lífinu gildi og öll hlutverk skipta máli.


Kæru Vestfirðingar! Njótum sumarsins saman og styðjum okkar menn í gegnum súrt og sætt. Gleymum því heldur ekki að vera góð við hvert annað...það gerir þetta miklu skemmtilegra.

 

Áfram BÍ/Bolungarvík!

Áfram Vestfirðir!!

 

Stjórn BÍ/Bolungarvíkur

Deila