Fréttir

Sigur gegn HK

Knattspyrna | 16.06.2011 BÍ/Bolungarvík 2 - 1 HK
0-1 Hólmbert Friðjónsson (‘8)
1-1 Tomi Ameobi ('60)
2-1 Matthías Króknes Jóhannsson ('67)

Það verður seint sagt að veðrið hafi leikið við áhorfendur á Torfnesvelli í kvöld þegar BÍ/Bolungarvík og HK áttust við. Norðangarrinn var svo kaldur að fréttaritari greip til þeirra ráða að bregða sér í gamla góða föðurlandið í hálfleik.

Það voru þó gestirnir úr Kópavoginum sem komu heitari til leiks og það voru þeir sem opnuðu markareikning sinn fyrr í leiknum. Á 8.mínútu fengu þeir hornspyrnu. Einn HK manna vinnur skallaeinvígið í teignum en sofandaháttur í vörn heimamanna varð til þess að Hólmbert Friðjónsson var gapandi frír á nærstönginni þegar boltinn barst til hans og hann átti ekki í neinum vandræðum með að afgreiða hann í netið.

Eftir 27.mínútna leik hefðu gestirnir getað fengið ágætis færi á að auka forystuna þegar virtist vera brotið á sóknarmanni þeirra. Halldór Breiðfjörð Jóhannsson dómari leiksins var þó ekki á sama máli og spjaldaði Kópavogsbúann fyrir leikaraskap.

Eftir hálftíma leik fengu heimamenn sitt besta tækifæri í hálfleiknum þegar Sigurgeir Sveinn Gíslason átti sendingu fyrir sem Tomi Ameobi lagði út á Colin Marshall sem skaut yfir.

Á 40.mínútu fengu HK algjört dauðafæri. Orri Sigurður Ómarsson lék á varnarmann og sendi boltann fyrir á Hólmbert Friðjónsson sem skallaði framhjá af stuttu færi.
Staðan 0-1 í hálfleik og ef eitthvað er hefði forysta HK getað verið meiri.

Það var þó allt annað uppi á teningnum hjá heimamönnum í seinni hálfleik og miklu meiri kraftur í þeirra leik en í fyrri hálfleik. Á 60.mínútu átti Sigurgeir Sveinn stórglæsilega sendingu af hægri kanti beint á kollinn á Ameobi sem skallaði boltann í netið og jafnaði leikinn 1-1. Spurningamerki verður að setja við Ögmund Ólafsson í marki HK sem eflaust hefði getað gert betur í þessu tilfelli.

Stuttu eftir markið kom hinn ungi Matthías Króknes Jóhannsson inná fyrir Sigþór Snorrason og átti hann heldur betur eftir að lífga upp á leikinn. Á 67.mínútu sendi Kevin Brown langan bolta fyrir sem svífur yfir Tomi Ameobi og varnarmann HK. Þar lúrir Matthías algjörlega einn og óvaldaður rétt við vítateigslínuna og hamrar boltann viðstöðulaust í hornið fjær, óverjandi fyrir Ögmund í markinu.

Vestfirðingar voru nálægt því að skora sitt þriðja mark á 80.mínútu þegar Alexander Veigar Þórarinsson lék listavel á tvo varnarmenn úti við vinstri hornfánann og náði ágætis skoti á markið sem var svo hreinsað í horn.

Til tíðinda dróg á 88.mínútu þegar varamaðurinn Birkir Halldór Sverrisson braut á leikmanni gestanna á miðjum vellinum. Stuttu áður hafði hann fengið að líta gula spjaldið fyrir keimlíkt brot og útlitið því ekki gott fyrir hans framhald í leiknum. Til smávægilegra stympinga og rökræðna kom á milli leikmanna áður en Halldór Breiðfjörð dómari sýndi Birki beint rautt spjald.

Heimamenn léku því einum færri þessar örfáu mínútur sem eftir voru. Það nægði þó ekki gestunum og leiknum lauk því með 2-1 sigri BÍ/Bolungarvíkur.
Ef lýsa ætti þessum leik í dæmisögu kemur sagan um skjalbökuna og hérann upp í hugann. HK-ingar byrjuðu af miklum krafti og voru bæði öflugri og líklegri í fyrri hálfleik. Það var þó sterkur lokakafli heimamanna sem réði úrslitum í dag.

Hjá BÍ/Bolungarvík var Sigurgeir Sveinn öflugur í hægri bakvarðarstöðunni og ekki er hægt að sleppa því að minnast á framgöngu Matthíasar Króknes í þessum leik. Hann hleypti miklu lífi í leik heimamanna og barátta hans og dugnaður smitaði út frá sér. Gaman er að sjá að þó svo að mörg ný andlit séu í liðinu þetta sumarið er ennþá pláss fyrir unga og uppalda leikmenn að skína.

Hjá gestunum voru það ungu strákarnir Orri Sigurður Ómarsson og Hólmbert Friðjónsson sem stóðu upp úr og áttu varnarmenn heimamanna oft í stökustu vandræðum með Hólmbert.
 - Gunnlaugur Jónason -

Frétt fr� Fótbolta.net. Sj alla fr�ttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=109915#ixzz1PQkUddW5 Deila