Fréttir

Sigur gegn Sandgerðingum

Knattspyrna | 11.07.2010 BÍ/Bolungarvík - Reynir
Lau. 10. júlí kl.15:00
Torfnesvöllur, Ísafirði
Íslandsmót 2. Deild

BÍ/Bolungarvík tók á móti Reyni frá Sandgerði í tíundu umferð 2. Deildar á Torfnesvelli síðastliðinn laugardag. Veðuraðstæður voru eins og best verður á kosið, glampandi sól með örlitlum vindi. Liðið hafði sigrað seinsta leik á móti Víði Garði en þar áður tapað illa fyrir Völsungi heima. Reynir hefur hinsvegar valdið vonbrigðum í sumar því liðínu var spáð mjög góðu gengi. Þeir voru í 8. sæti fyrir leikinn og þurftu nauðsynlega á sigri til að sogast ekki niður í fallbaráttuna.

Byrjunarliðið var þannig skipað (mynd nr.2)
Á varamannabekknum voru Ásgeir Guðmunds, Addi, Guðni Páll, Gummi Þorbjörns og Magnús Ingi. Emil Páls var í leikbanni og Matti meiddur.

Leikurinn hófst neð mikilli baráttu og lítið um opin færi í fyrri hálfleik. Heimamenn spiluðu boltanum mun betur upp að seinasta þriðjung vallarins heldur en gestirnir. Það sem við þyrftum að bæta eru síðustu sendingar sem oftast nær eru of lausar eða röng ákvörðun tekin. Reynismenn voru þó alltaf hættulegir þó svo þeir hafi ekki verið að skapa mörg færi. Pétur Geir fékk fyrsta dauðafærið eftir frábært spil upp hægri vænginn þar sem hann komst einn á móti markmanni í þröngu færi en skaut yfir. Leikur Reynis fór mikið í gegnum aldursforsetan Sinisa Kekic sem hékk oft mjög lengi á boltanum og stöðvaði allt flæði í spil Reynis(mynd nr.3,4,5 og 6). Þeir ættu að athuga með að hafa hann í vörn eða jafnvel upp á topp. Fyrsta markið kom eftir að hornspyrna frá Andra er hreinsuð frá beint á hann aftur. Hann kemur síðan með flotta fyrirgjöf á nærstöng þar sem Gunnar Már(mynd nr.7) er mættur og stangar hann í netið. 1-0 fyrir heimamenn sanngjarnt, markið hafði legið í loftinu í smá tíma. Seinasta korter hálfleiksins gerðist lítið markvert og flautaði góður dómari leiksins, Gunnar Jarl, til hálfleiks. Þess má geta að dómarinn var einnig kominn á Ísafjörð til að taka þátt í ættarmóti Góustaðarættarinnar inn í Skutulsfirði.

Seinni hálfleikurinn byrjaði mjög svipað og þeim fyrri lauk, lítið að gerast og liðin að reyna búa til álitlegar sóknir sem ekkert varð úr. Þegar um hálftími er eftir er Sigþór tekinn útaf, hann var kominn með spjald fyrr í leiknum og Alfreð þjálfari tók enga áhættu með það. Inn á kom presturinn Gummi Þorbjörns í stöðu Sigþórs. Fyrstu mínúturnar eftir skiptinguna riðlaðist leikur okkar enda Sigþór búinn að vera einn jafnbesti maður liðsins í sumar. Mistökunum hefur fækkað til muna hjá honum og hann farinn að þekkja sín takmörk. Einfaldar breytingar á spilamennsku hans og hann er oftar en ekki besti maður vallarins fyrir vikið, skilar alltaf sínu. Reynismenn gerðu einnig beytingu og voru farnir að sækja mun meira í leiknum. Það endaði síðan með jöfnunarmarki þar sem Kekic á fast skot sem Robbi heldur ekki í markinu og Emil Daði er réttur maður á réttum stað, nýkominn inn á og setur hann auðveldlega yfir línuna. Fljótlega eftir þetta á Robbi mjög flotta markvörslu í markinu og heimamenn farnir að spila betur aftur eftir markið. Pétur Geir skorar skallamark en er dæmdur rangstæður en fljótlega eftir það tökum við hornspyrnu beint á kollinn á Sigurgeiri sem hamrar hann í slánna og niður(mynd nr.8). Markmaðurinn grípur strax boltann en línuvörður leiksins dæmir boltann réttilega langt fyrir innan. 2-1 fyrir okkur.

Eftir þetta gerðum við breytingar, Addi kom inn á fyrir Gulla og Guðni fyrir Óttar. Gunnar Már fór inn á miðju til að loka betur þar og Guðni kom sterkur í bakvörðinn. Eftir þetta reyndu Reynismenn að setja fleiri í sóknina og jafna leikinn en sóknir þeirra voru máttlausar. Við biðum rólegir enda með fljóta menn í framlínunni. Síðustu tíu mínúturnar hefðum við getað sett fjögur mörk því dauðafærin komu á færubandi. Við vorum heppnir að þessi klúður komu ekki í bakið á okkur. Dómarinn flautaði síðan til leiksloka og stigin þrjú okkar. Eftir leikinn erum við fjórum stigum á eftir Víking í fyrsta sæti og þrjú stig eru í Hött fyrir neðan okkur í þriðja sæti. Allar líkur eru á því að útileikurinn við Víking Ólafsvík sem átti að vera í vikunni verði frestaður um óákveðinn tíma. Það verður uppfært á síðunni hér um leið og það kemur á hreint. Deila