Fréttir

Staðsetning stúku samþykkt.

Knattspyrna | 06.09.2011

www.bb.is:

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt breytingu á deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir að vegleg áhorfendastúka fyrir rúmlega 800 manns verði byggð fyrir ofan Torfnesvöll á Ísafirði. Tillaga að breyttu deiliskipulagi var samþykkt með öllum atkvæðum bæjarfulltrúa en fulltrúar Í-listans ítrekuðu í fundarbókun að ekki væri verið að skuldbinda bæjarfélagið til að leggja fram fjármagn til byggingarinnar, þó að stúkan væri samþykkt í skipulagi. Samkvæmt greinargerð með tillögu að deiliskipulagsbreytingunni skal hæsta brún stúkuþaksins ekki vera hærri en 11 metrar yfir jarðhæð og ekki yfir götuhæð Seljalandsvegar ofan byggingareits. Sniðmyndir sem fylgdu tillögunni sýndu tvö mismunandi dæmi um áhorfendastúkur. Er tekið fram í fundarbókun að deiliskipulagstillagan sé samþykkt með þeim breytingum að lágreistari byggingin, sem kynnt var, verði heimiluð á svæðinu. Talið er að sú bygging skerði ekki útsýni yfir Pollinn á Ísafirði.

Þá skal mannvirkið fellt að landinu eins vel og kostur er, án þess að skerða nýtingarmöguleikana, en æskilegt er að nýta landhallann til þess. Jafnframt er æskilegt að nýta trjágróður ofan við mannvirkið til að milda ásýndina en þó án þess að hann skerði útsýni frá Seljalandsvegi. Ráðgert er að ljúka framkvæmdum við stúkuna á næsta sumri. Þá er uppi sú hugmynd að undir stúkunni verði lögleg keppnis- og æfingaaðstaða fyrir skotíþróttamenn, þar sem hægt verður að æfa og keppa í skotfimi á 25 og 50 metra færi.

Stjórn KSÍ hefur samþykkt 10 milljóna króna styrk í verkið á þessu ári og standa vonir til að aðrar 10 milljónir fáist á næsta ári. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 60 milljónir og hefur eignarhaldsfélagið ST2011 óskað eftir 20 milljóna króna framlagi frá Ísafjarðarbæ sem greiðist á fjórum árum. Þær 20 milljónir sem upp á vantar hafa velunnarar Héraðssambands Vestfjarða, BÍ 88 og SkotÍs heitið að fjármagna með sjálfboðavinnu og fjárstyrkjum. Engin afstaða hefur verið tekin til fjárframlaga frá bænum, en telja má líklegt að verði til umræðu við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2012.


Frétt af bb.is

Deila