Fréttir

Stórsigur í Sandgerði

Knattspyrna | 12.09.2010 BÍ/Bolungarvík fóru til Sandgerðis á laugardaginn til að etja kappi við heimamenn í Reyni. Leikurinn byrjaði fjörlega því Hafþór Agnarsson skoraði sjálfsmark og kom Reyni í 1-0 snemma leiks. Hafþór bætti síðan upp fyrir sjálfsmarkið með flottri sendingu inn á Jónmund Grétarsson sem jafnaði þrem mínútum síðar. Fátt markvert gerðist næstu tuttugu mínúturnar en á 34. mínútu kom Andri Rúnar BÍ/Bol yfir, 1-2 með glæsilegu skoti. Eftir þetta hófst klukkutíma markaveisla þar sem BÍ/Bolungarvík skoraði átta mörk í viðbót og sundurspilaði lið Reynis hvað eftir annað. Leikurinn endaði 4-10 þar sem markvörður Reynis fékk rautt spjald þegar um hálftími var eftir og Andri Rúnar skoraði úr vítaspyrnu strax á eftir. Andri skoraði 3 mörk, Jónmundur 2, Dalibor, Emil, Milan, Pétur Geir og Addi allir með sitt markið hvor. Andri Rúnar er markahæsti leikmaður 2. deildar með 18 mörk í 21 leik. Jónmundur Grétarsson hefur leikið 10 leiki og skorað 10 mörk með BÍ/Bolungarvík frá því hann kom til liðsins í félagaskiptaglugganum í júlí.

Síðasti leikur tímabilsins er heimaleikur á næstu helgi gegn efsta liði deildarinnar, Víking frá Ólafsvík. Þeir hafa fyrir þó nokkru tryggt sér sigur í deildinni og stefna á að reyna setja íslandsmet í stigafjölda. Leikurinn hefur þess vegna litla þýðingu fyrir bæði lið þar sem þau eru bæði kominn upp um deild. Um kvöldið mun BÍ/Bolungarvík halda lokahóf en greint verður nánar frá því seinna í vikunni. Deila