Fréttir

Strákarnir mæta Lummunni eða Berserkjum

Knattspyrna | 19.02.2014

Karlalið BÍ/Bolungarvíkur mætir sigurvegara úr viðureign Lummanna og Berserkja í Borgunarbikar Knattspyrnusambands Íslands. Dregið var í bikarnum í gær og fer leikurinn fram 13. maí á heimavelli sigurvegara fyrri leiksins. Á fréttasíðunni fotbolti.net segir að Lumman sé eitt af nýju liðunum sem keppir í fjórðu deildinni í sumar og nafnið á liðinu kemur frá samnefndu „appi“ þar hægt að nálgast fótboltafréttir. Lumma er einnig slanguryrði yfir munntóbak en Helgi Pjetur Jóhannsson ítrekar við Fótbolta.net að nafnið sé ekki dregið af ósiðnum heldur af gamla góða bakkelsinu. Lumman spilar heimaleiki sína í Kópavogi. 

„Liðið er byggt upp á ungum og efnilegum leikmönnum í bland við gamla öfluga reynslubolta. Við erum ennþá að byggja upp hópinn og stækka og þétta hann á næstu vikum. Þarna eru reynsluboltar eins og Eyþór Atli Einarsson, fyrrverandi leikmaður Grindavíkur, Helgi Pjetur, fyrrverandi leikmaður Leiknis, Viðar Guðjónsson, fyrrverandi leikmaður Fram og Fjölnis, Kjartan Andri Baldvinsson, fyrrverandi leikmaður Fylkis og Leiknis ásamt fleiri öflugum leikmönnum,“ er haft eftir Helga Pjetri á Fótbolta.net. 

Berserkir eru eldra lið, stofnað 2007. Á síðu liðsins segjast þeir vera „fallegasta knattspyrnulið landsins sem var stofnað af nokkrum vöskum mönnum í upphafi árs 2007. Berserkir þykja bera af í þokka og eru afar vinsælir hjá kvennþjóðinni. Mikil gleði ríkir meðal leikmanna Berserkja innan sem utan vallar sem smitar frá sér útí þjóðfélagið. Margir merkismenn þjóðarinnar styðja Berserki og má þar á meðal nefna Björk Guðmundsdóttur, Björgvin Halldórsson og Frank Hall.“ 

Frétt af bb.is

Deila