Fréttir

Svekkjandi jafntefli gegn Haukum

Knattspyrna | 23.07.2011 BÍ/Bolungarvík 0-0 Haukar

Spánýtt stuðningsmannalag BÍ/Bolungarvíkur ómaði um Skutulsfjörðinn í dag þegar Haukamenn komu í heimsókn. Bæði lið hefðu með sigri getað blandað sér af fullri alvöru í toppbaráttuna, eða öllu heldur baráttuna um annað sætið eins og þetta er nú orðið. Fyrirfram hefði því mátt búast við blússandi sóknarbolta á báða bóga.

Erfitt væri að skrifa langan pistil um fyrri hálfleikinn svo bragðdaufur var hann. Bæði lið virtust eiga í erfiðleikum með að tengja saman fleiri en 2-3 sendingar og fá færi litu dagsins ljós.

Eftir rétt rúmlega hálftíma leik fékk Tomi Ameobi sendingu inn á markteig frá Colin Marshall og skallaði knöttinn í netið framhjá Daða Lárussyni í markinu. Aðstoðardómarinn lyfti þó flaggi sínu og sagði Ameobi hafa verið rangstæðan. Heimamenn voru ekki sáttir við þennan dóm og vildu meina að Gunnar Már Elíasson hefði verið rangstæður en ekki Ameobi. Aðspurður var dómarinn þó handviss í sinni sök.

Mínútu síðar þurfti Magnús Gylfason þjálfari gestanna aða gera breytingu á sínu liði. Guðmundur Viðar Mete kenndi sér þá meiðsla og í stað hans kom Ísak Örn Þórðarson inn á. Innkoma Ísaks átti þó eftir að verða styttri en vonast var til.

Á 40.mínútu fóru þeir Ísak Örn og Zoran Stamenic uppí skallabolta og lágu báðir óvígir eftir. Zoran var ekki sáttur við framgöngu Ísaks og stjakaði við honum þar sem hann lá í grasinu.

Fór svo að lokum að Zoran fékk að líta gula spjaldið en Ísak var borinn útaf. Ísak yfirgaf svo vallarsvæðið á endanum í sjúkrabíl vafinn á ökkla en Haukamenn vissu ekki á þeirri stundu sem við þá var rætt hversu alvarleg meiðsli hans eru. Inn á fyrir Ísak kom svo nafni hans Ísak Örn Einarsson.

Á síðustu mínútu fyrri hálfleiksins fengu Haukamenn svo hættulegasta færi leiksins til þessa þegar Aron Freyr Eiríksson komst innfyrir vörnina og upp að markteigshorninu en skot hans hafnaði í hliðarnetinu.

Seinni hálfleikur þróaðist framan af líkt þeim fyrri. Afar bragðdaufur og tíðindalítill. Í texta hins nýsamda stuðningsmannalags segir "tæklum þá þið megið sjá að enginn kemst í gegn" og átti það einkar vel við í dag þar sem Haukamenn lágu oft óvígir eftir tæklingar heimamanna.

Þegar um korter var eftir af leiknum fór þó að færast aðeins meira fjör í leikinn þegar bæði lið fóru að taka meiri áhættu. Á 76.mínútu fengu gestirnir hornspyrnu. Eftir hana átti Ísak Örn skalla sem hafnaði ofan á slánni og datt þaðan fyrir fætur Úlfars Hrafns Pálssonar, allt leit út fyrir að Úlfar myndi skora en Þórður Ingason gerði sig breiðan og kastaði sér fyrir bakfallsspyrnu Úlfars og varði stórkostlega.

Þeir Andri Rúnar Bjarnason og Alexander Veigar Þórarinsson komu inná stuttu áður og hleyptu nýju lífi í sóknarleik BÍ/Bolungarvíkur. Á 80.mínútu komst Andri Rúnar einn innfyrir en Benis Krasniqi henti sér fyrir skot hans og boltinn barst í horn. Eftir mikinn barning og hamagang í teignum í kjölfar hornspyrnunnar náðu gestirnir þó að hreinsa frá.

Á 90.mínútu leit þó langbesta færi leiksins dagsins ljós. Andri Rúnar Bjarnson sendi þá boltann fyrir, Tomi Ameobi stökk upp í skallaboltann en boltinn sveif yfir hann og beint fyrir fætur Alexanders. Alexander virtist ekki eiga von á því að fá boltann og gerði sér ekki grein fyrir tímanum sem hann hafði því skot hans hafnaði í stönginni fyrir galopnu marki.

Þessi úrslit gera það að verkum að Selfoss er í öðru sæti og hefur nú sjö stiga forskot á Hauka í því þriðja. Bí/Bolungarvík kemur svo næst í fjórða sæti stigi á eftir Haukum.

- Gunnlaugur Jónasson -

Frétt fr� Fótbolta.net. Sj alla fr�ttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=111923#ixzz1SxaJbMka Deila