Fréttir

Þægilegur sigur á Akranesi

Knattspyrna | 13.08.2011 ÍA 1 - 2 BÍ/Bolungarvík
0-1 Tomi Ameobi ('26)
1-1 Ólafur Valur Valdimarsson ('39)
1-2 Tomi Ameobi ('84)
Rautt spjald: Gary Martin, ÍA ('74)

Það átti heldur betur að slá til veislu á Akranesi í kvöld þegar ÍA ætlaði að tryggja sér sæti í efstu deild að nýju í frábæru veðri fyrir framan mikinn fjölda áhorfenda á Akranesvelli. Liðið þurfti aðeins eitt stig úr leiknum til að tryggja úrvalsdeildarsæti

Lið BÍ/Bolungarvíkur var þannig skipað (5-3-2):
Þórður - Abs, Atli, Sigurgeir, Ondo, Kevin - Haffi, Sölvi, Nicky - Ameobi og Andri Rúnar
Á varamannabekknum voru þeir Alexander, Pétur Markan, Matti, Nikulás, Bjarki og Sigþór. Í lið okkar vantaði fyrirliðann Gunnar Már sem var í banni og Zoran Stamenic sem er ennþá meiddur.

Við byrjum leikinn mjög varkárir og ætluðum að sjá hvernig hann myndi þróast fyrstu tuttugu mínúturnar. Skagamenn sköpuðu sér tvö til þrjú hálfæri á þessum tímapunkti. Eftir það fórum við að halda boltanum betur og eiga álitlegar sóknir. Ameobi var t.d. við það sleppa í gegn en skaut framhjá markinu. Við fengum hinsvegar réttilega dæmda vítaspyrnu á 26.mínútu, þá fyrstu í sumar en þær ættu að vera orðnar svona 6 talsins. Reynir Leósson braut þá klaufalega á Tomi utarlega í teignum og Kristinn Jakobsson frábær dómari leiksins benti umsvifalaust á punktinn. Tomi skoraði síðan af gríðarlegu öryggi. Við héldum okkar skipulagi áfram, tókum enga sénsa aftast og síðan var sótt hratt og ákveðið þegar boltinn vannst.

Á 39.mínútu þegar leikurinn var orðinn mjög rólegur og við með ágæt tök á honum þá kemur há sending innfyrir vörnina þar sem okkar varnarmenn lenda í kapphlaupi við Gary Martin sem nær að renna honum út á auðan mann sem rennur honum undir Dodda í markið. Staðan 1-1 í hálfleik og okkar menn verulega svekktir með að hafa gefið svo auðvelt mark.

Í stuttu máli var bara eitt lið á vellinum í seinni hálfleik og það var BÍ/Bolungarvík. Við tókum öll völd á miðjunni og færin voru okkar. Fyrst er Andri að sleppa í gegn og kemst framhjá markverði skagamanna eftir klafs en skot hans að markinu er laust og varnarmaður þeirra bjargar nánast á línu. Stuttu seinna áttu Andri og Nicky ágætar tilraunir að marki.

Á 74.mínútu fær Gary Martin leikmaður ÍA sanngjarnt beint rautt spjald fyrir glórulausa tveggja fóta tæklingu á Nicky. Skagamenn orðnir einum færri og markið lá í loftinu hjá okkar mönnum. Guðjón ákveður að breyta þarna um taktík og setja Pétur Markan inn á fyrir Haffa. Sóknarmaður inn á fyrir miðjumann og breytt í 4-3-3 og allt sett á fullt að reyna hirða öll stigin. Það skilaði sér með marki á 84. mínútu þegar Kevin tekur stutt horn á Nicky sem kemur með stórglæsilega fyrirgjöf beint á kollinn á Tomi sem skallar hann auðveldlega í netið. Staðan orðin 1-2 fyrir okkur og fimm mínútur eftir ásamt uppbót. Aðeins tveimur mínútum eftir þettta brýtur Abs mjög klaufalega af sér innan vítateigs og réttilega var dæmd vítaspyrnu. Mark Doninger steig á punktinn en Þórður Ingason varði stórglæsilega í markinu og tryggði mjög svo sanngjarnan og þægilegan sigur á ÍA.

Vinnuframlagið var gríðarlegt í dag, það gáfu sig allir allt sem þeir áttu í leikinn og baráttan var ótrúleg. Doddi var mjög traustur að vanda í markinu. Sigurgeir, Atli og Ondo komu öllum boltum í burtu, Sölvi hljóp og hljóp allan leikinn. Haffi stoppaði margar sóknir skagamanna og Nicky stjórnaði miðjunni eins og herforingi. Tomi og Andri náðu vel saman frammi og voru stanslaust ógnandi og gáfu varnamönnum ÍA engan frið. Matti og Sigþór komu síðan inn á lokin og stóðu sig vel. Sigur liðsheildarinnar! Deila