Fréttir

Þórður Gunnar með U-17 landsliði Íslands

Knattspyrna | 25.10.2017
Þórður Gunnar Hafþórsson leikmaður knattspyrnudeildar Vestra
Þórður Gunnar Hafþórsson leikmaður knattspyrnudeildar Vestra
1 af 5

Þórður Gunnar Hafþórsson, 15 ára leikmaður knattspyrnudeildar Vestra, hlaut þá upphefð að vera valinn í U-17 landslið Íslands í sumar. Tók hann þátt í tveimur verkefnum, Norðurlandamóti í Reykjavík og undankeppni EM sem fram fór í Finnlandi fyrir stuttu. Við báðum Þórð að segja okkur aðeins frá þessu.

“Í sumar tókum við í U-17 þátt í Norðurlandamóti á Íslandi sem stóð frá 30. júlí til 5. ágúst þar vorum við í A-riðli og kepptum við lið eins og Norður-Írland, Noreg, Pólland og Finnland.

(Einhverjum gæti þótt það skrítið að sjá þessar þjóðir meðal Norðurlandaþjóðanna en leiknir voru tveir riðlar þar sem þessar þjóðir voru meðal þátttakenda. Í hinum riðlinum voru Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Færeyjar).

Þar stóðum við okkur vel en enduðum þó í 3. sæti riðilsins okkar og endanlega í 5. sæti, svo jöfn var keppnin. Til marks um það get ég sagt að við hefðum getað komist í úrslit með sigri á Póllandi en þeim leik töpuðum við naumlega 2-1. Við gerum síðan 1-1 jafntefli við Noreg sem endaði á að vinna mótið og vinnum svo Norður-Írland með látum (3-0 á Sandgerðisvelli). Við töpuðum síðan gegn Finnlandi í vítaspyrnukeppni í leik um 4. sætið.” Það munaði sem sagt grátlega litlu að endanleg staða yrði talsvert betri.

Þórður Gunnar tók síðan þátt í öðru verkefni með liðinu:

“Við tókum þátt í undankeppni EM í Finnlandi núna í haust þar sem við stóðum okkur með prýði og komumst alla leið í milliriðla. Við fengum ekki á okkur mark á því móti. Við kepptum við Finnland, Færeyjar og Rússland. Við gerðum 0-0 jafntefli við Finnland og unnum bæði Færeyjar og Rússland 2-0.“

En hvernig gengur hefðbundinn dagur fyrir sig í svona móti?

Leikdagur byrjar þannig að við vöknum og förum í léttan göngutúr, eftir göngutúrinn förum við í morgunmat, síðan förum við upp í herbergi og slökum aðeins á. Eftir slökun förum við á fund þar sem við ræðum hvað við ætlum að gera gegn andstæðingunum og svona. Síðan er léttur matur um hádegisbil og leikur eftir það. Eftir leikinn förum við í mat og þar á eftir er hvíld og afslöppun þar sem við spjöllum, leikum létt og gerum eitthvað skemmtilegt. Um kvöldið er síðan aftur fundur þar sem við ræðum um leikinn og fáum okkur kvöldkaffi og eftir það förum við bara að sofa.

En hvað kemur mest á óvart í svona verkefnum?

Það kom mér mikið á óvart hvað þetta var ótrúlega vel skipulagt og vel haldið utan um þetta, hvað við vorum á góðum hótelum og góðar aðstæður. Manni leið eins og maður væri atvinnumaður þegar maður var þarna.

Hvað er skemmtilegast í landsliðsverkefnum?

Það sem var alltaf skemmtilegast var að spila. Það hefur alltaf verið draumur að spila með unglingalandsliðum og vinna sig síðan uppí A-Landsliðið.

Hópurinn var frábær og er það stór ástæða fyrir því að við stóðum okkur svona vel. Það koma allir svo vel fram við alla og kynntist maður mörgum.

Ég ætla líka að hrósa þjálfarateyminu sem hefur gert geggjaða hluti með að móta þetta lið og þjálfa.

Ertu með skilaboð til félaga þinna hjá knattspyrnudeildinni?

Æfingin skapar meistarann og aldrei gefast upp.

Við óskum Þórði Gunnari innilega til hamingju með árangurinn sem er til marks um mikla vinnu og strangar æfingar. Nú bíðum við bara frekari frétta að komandi verkefnum hans.

Deila